Fellur flugvöllurinn út af aðalskipulagi Reykjvavíkur í sumar?

Við Reykvíkingar höfum horft upp á fjórflokkinn hér í borginni takast að gera hið ómögulega. Gullgæs okkar, Orkuveitan,hefur verið rekin þannig að hún er nánast gjaldþrota. Fjórir meirihlutar með fjóra borgarstjóra skiptust á að stjórna borginni á síðasta kjörtímabili.

Kjörtímabilið endaði svo með því að allir voru búnir að sænga hjá öllum. Allir leikararnir í þeim leik, með einni eða tveim undantekningum, stilla sér nú upp á ný og bjóðast til að halda áfram að stjórna borginni og munu að öllu óbreyttu gera það næstu fjögur árin með sama "galskap" og á síðustu árum. 

Eina leiðin til að höggva á þetta rugl er nýtt framboð sem er ekki háð fjórflokknum og þeim valdaklíkum og þeim sérhagsmunum sem stjórna fulltrúum hans. Slíkt framboð sem gengur fyrst og fremst erinda Reykjavíkur í borgarstjórn er það sem þarf.

Ef slíkt framboð fengi a.m.k einn borgarfulltrúa og ef Reykjavíkurframboðið verður með í næsta meirihluta þá fellur flugvöllurinn úr af aðalskipulagi Reykjavíkur strax í sumar og á svæðinu verður samþykkt að reist verði blönduð miðborgarbyggð. Um leið og það gerist verður allt þetta land veðhæft.

Ef Reykjavíkurframboðið nær einum manni inn og verður í vor hluti af nýjum meirihluta í borginni þá verður byrjað að selja lóðir í Vatnsmýrinni á næsta kjörtímabili.

Við þá sem vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni og vilja koma í veg fyrir að Vatnsmýrin verði tekin undir miðborgarbyggð og að borgin innleysi þessa 70 milljarða sem Vatnsmýrin er að minnsta kosti metin á sem land undir miðborgarbyggð, við þá segi ég:  

"Það sem er gott fyrir höfuðborgina það er gott fyrir allt landið".

Við þá sem

  • vilja tryggja að Reykjavík standi vörð um sín stærstu hagsmunamál,
  • vilja auka ráðstöfunartekjur borgarinnar næstu fjögur ár um 12% á ári með sölu lóða í Vatnsmýrinni,
  • vilja standa vörð um þjónustu borgarinnar og skapa ný störf í kreppunni,  
  • vilja bæta við nýjum valkosti í búsetu okkar Íslendinga, valkosti sem allar þjóðir nema við bjóðum upp á, það er, búsetu í alvöru miðborg,

þá er engin annar kostur í stöðunni en snúa baki við fjórflokknum í komandi borgarstjórnarkosningum og vinna og stuðla að því að nýtt afl og nýtt fólk komist til áhrifa í borginni.

Sjá:                             xE - Reykjavíkurframboðið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Það er annað hvort hroki eða vanþekking sem hleypir svona fullyrðingu á blað:

Tilvitnun hefst.

Við þá sem vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni og vilja koma í veg fyrir að Vatnsmýrin verði tekin undir miðborgarbyggð og að borgin innleysi þessa 70 milljarða sem Vatnsmýrin er að minnsta kosti metin á sem land undir miðborgarbyggð, við þá segi ég:

"Það sem er gott fyrir höfuðborgina það er gott fyrir allt landið".

Tilvitnun lýkur.

Hvernig má það vera að Reykjavíkurborg, sem situr uppi með lóðir fyrir marga milljarða og stendur í ströggli við hóp manna sem vilja skila fleiri lóðum, eigi að geta innleyst 70 milljarða króna með því að breyta Vatnsmýrinni í fleiri lóðir?

Vatnsmýrin er best nýtt undir flugvöllinn. Punktur og basta. Enda er meirihluti borgarbúa á því að flugvöllurinn sé best geymdur þar.

Sigurður Ingi Jónsson, 15.5.2010 kl. 01:32

2 identicon

Segðu mér eitthvað um annað en 101 og Vatnssmýrina ?

 Þið eru glötuð !

 Var þér ekkert gefið betra en þetta ?

JR (IP-tala skráð) 15.5.2010 kl. 02:28

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Sigurður

Nýjustu spár gera ráð fyrir því að fasteignamarkaðurinn fari í gang eftir 3 ár. Nú í haust hefur fasteignamarkaðurinn verið frosinn í 3 ár. Í ár og á næstu árum munu stærstu árgangar Íslandssögunnar fagna 25 ára afmælinu sínu. Í þessum árgöngum eru um og yfir 4.000 manns. Í haust þá munu um 12.000 Íslendingar hafa fagnað 25 ára afmælinu sínu frá því fasteignamarkaðurinn fraus haustið 2007.

Ef þessar spár eru réttar að fasteignamarkaðurinn fer í gang eftir þjrú ár þá þýðir það að um 24.000 mann hefur haldið upp á 25 ára afmælið sitt frá því fasteignamarkaðurinn fraus haustið 2007 og þar til hann fer í gang aftur 2013.

Í dag er áætlað að um 900 til 3.000 nýjar íbúðir séu auðar eða háflbyggar. Þessi fjöldi íbúða er eins og upp í nös á ketti þegar þessi 24.000 manns fer loks af stað að stofna sín eigin heimili og kaupa íbúðir.

Ef við breytum aðalskipulagi Reykjavíkur í sumar eins og við hjá Reykjavíkurframboðinu viljum gera og skipuleggjum miðborgarbyggð í Vatnsmýrinni þá mun það passa fínt að við verðum þá komin með tilbúið deiliskipulag í Vatnsmýrinni þegar skriðan fer af stað á ný 2013 og verðum þá tilbúin að lóðir til sölu fyrir þá ungu Íslendinga sem velja að búa í miðborg í stað úthverfanna. Úthverfa sem kalla á að hver fjölskylda eigi tvo bíla og aki a.m.k 100 km á dag með tilheyrandi kostnaði, slysahættu, mengun og sóun á frítíma sem annars væri hægt að eyða með fjölskyldunni eða sinna áhugamálum.

Þetta mál snýst um hagkvæmni í rekstri heimilanna. Þetta mál snýst um lífsgæði. Þetta mál snýst um að bjóða þeim Íslendingum sem vilja búa í miðborg í stað úthverfa upp á þann valkost að geta búið á Íslandi og notið þeirra lífsgæða að búa í miðborg, fyrir þá sem það vilja. Þetta mál snýst um að Reykjavík bjóði upp á sömu valkosti í búsetu og aðrar borgir Evrópu.

Og Sigurður aftur kemur vor í dal.

Framtíðin kemur og við verðum að vera tilbúin að taka á móti henni.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.5.2010 kl. 02:33

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Það er rangt hjá þér Sigurður að meirihluti borgarbúa vilji hafa flugvöll í Vatnsmýrinni.

Fyrir 9 árum var haldin sérstök kosning hér í Reykjavík um þetta mál.

Niðurstaða þeirrar kosningar var að borarbúar völdu miðborgarbyggð frekar en flugvöll.

Fanatískir bindindismenn hafa aldrei sætt sig við niðurstöðu kosninga þegar kosið hefur verið um hvort opna eigi áfengisútsölur á hinum ýmsustu stöðum.

Það virðist svo með marga andstæðinga miðborgarbyggðar í Vatnsmýrinni að þeir sætta sig ekki við að búa í samfélagi sem byggir á lýðræði. Þeir vilja ekki að almenningur ráði. Þeir vilja sjálfir ráða.

Er það þannig sem við Íslendingar eigum að feta saman okkar æfiveg?

Meirihlutinn á ekki að fá að ráða, þeir freku eiga að ráða?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.5.2010 kl. 02:44

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll JR

"Betra en þetta"

Það er ekkert betra en þetta.

Hvaða annað framboð leggur með sér a.m.k. 70 milljarða í þessar kosningar?

Hvaða annað framboð er að sækja fram í þessum sveitarstjórnarkosningum og er með í hendi fjármögnun á öllum sínum kosningaloforðum?

Hvaða framboð ætlar að breyta gamla miðbænum Reykjavíkur í eina glæsilegustu miðborg í Evrópu með því að stækka hann út í Vatnsmýrina?

Bara með því að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur þannig að Vatnsmýrin verði skilgreind sem miðborgarbyggð í stað flugvallar þá verður Vatnsmýrin veðhæf fyrir minnst 70 milljarða.

Uppsveiflan bíður okkar innan tveggja til fjögurra ára. Nú er rétti tíminn til að undirbúa hana.

Hugsum til framtíðar. Ekki gleyma okkur í svörtu öskuskýi dagsins í dag eins og engin verði morgundagurinn

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.5.2010 kl. 02:58

6 Smámynd: Ágúst H Bjarnason



Sæll Friðrik.

Það er ágætt að fjalla um þetta mál, en varðandi kosningarnar árið 2001 um framtíð Reykjavíkurflugvallar:

Borgarstjórn Reykjavíkur undir forystu Ingibjargar Sólrúnar samþykkti  að niðurstaða kosningarinnar skyldi vera bindandi ef að minnsta kosti þrír fjórðu hlutar atkvæðisbærra manna (u.þ.b. 60.000 manns) tækju þátt  í kosningunni eða ef helmingur atkvæðisbærra manna (u.þ.b. 40.000 manns) greiddu öðrum hvorum kostinum atkvæði sitt.

Niðurstaðan var að 30.219 af 81.258 á kjörskrá kusu (37,2%), þar af vildu 14.529 (48,1%) áfram flugvöllinn en 14.913 (49,3%) vildu að flugvöllurinn færi. Munurinn var 384 atkvæði.

Einhvern vegin finnst mér niðurstaðan ekki vera tölfræðilega marktæk. Hvað finnst þér?

Væri ekki nauðsynlegt að endurtaka þessa kosningu og taka þannig af allan vafa um vilja borgarbúa? Eða ættu þeir sem búa utan borgarinnar einng að fá að kjósa um málið, en Reykjavík er höfuðborg allra Íslendinga hvar sem þeir búa? Ég þykist vita að margir landsmenn eru þeirrar skoðunar, en hvað finnst þér?

Með góðri kveðju...

Ágúst H Bjarnason, 15.5.2010 kl. 08:59

7 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

"Hvaða annað framboð leggur með sér a.m.k. 70 milljarða í þessar kosningar?" spyr Friðrik.

Ef eitthvað að marka þetta verðmat, sem mér persónulega þykir út í hött, þá er leggja öll framboð nema H og F þessa sömu 70 milljarða til í kosningarnar. Besti flokkurinn hefur ekki gefið upp sín áform, en ég er þess fullviss að þau verða ekki síður verðmæt.

Þá segir Friðrik:

"Hvaða framboð ætlar að breyta gamla miðbænum Reykjavíkur í eina glæsilegustu miðborg í Evrópu með því að stækka hann út í Vatnsmýrina?

Bara með því að breyta aðalskipulagi Reykjavíkur þannig að Vatnsmýrin verði skilgreind sem miðborgarbyggð í stað flugvallar þá verður Vatnsmýrin veðhæf fyrir minnst 70 milljarða."

Þetta minnir á tal um að Ísland verði alþjóðleg fjármálamiðstöð. Hvernig í ósköpunum dettur fólki í hug að með einu pennastriki verði malbikaður mýrarfláki að 70 milljarða veðhæfri eign og að það sé á einhvern máta frábært fyrir borgina að geta slegið út á það?

Ekki tel ég gengi E listans aukast við þessar reiknikúnstir.

Sigurður Ingi Jónsson, 15.5.2010 kl. 10:41

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Ágúst

Ég sé ekki ástæður þess að gert sé lítið úr þessari atkvæðagreiðslu um Vatnsmýrina. Þátttaka upp á rúm 37% þykir góð í þeim löndum þarf sem slíkar atkvæðagreiðslur eru meiri hefð en hér og slíkar atkvæðagreiðslur notaðar til að skera úr um ýmis deilumál. Þeir í Sviss hefðu verið ánægðir með slíka þátttöku þegar málefnið eru ákvarðanir í skipulagsmálum.

Mikil krafa er í dag í samfélaginu að meira verði gert með slíkar atkvæðagreiðslur og þær notaðar oftar. Ákveðin skref hafa verið stigin í slíka lýðræðisátt. Má þar nefna nýlegar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave og Fjölmiðlafrumvarpið.

Engin ástæða er því til að gera lítið úr þeim atkvæðagreiðslum sem þegar hafa verið haldnar. Þetta er bara eitt form lýðræðisins.

Hvernig þessi borgarstjórnarmeirihluti R listans vildi túlka niðurstöður atkvæðagreiðslunnar, það var þeirra pólitíska ákvörðun. Sú túlkun þeirra brýtur í bága við allt sem kallað er lýðræði. Þar á meðal ákvæði stjórnarskrárinnar hvernig beri að túlka þjóðaratkvæðagreiðslur og útslit kosninga. Sem betur fer er flest það fólk sem þetta ákvað hætt í pólitík.

Niðurstaða kosningarinnar um Vatnsmýrina stendur óbreytt.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.5.2010 kl. 12:57

9 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Ágúst

Varðandi það hvort landsmenn allir eigi að fá að sýsla með og fá að ráða skipulagsmálum í Reykjavík þá er það mín skoðun að svo eigi ekki að vera. Það er ekki mál okkar Reykvíkinga hvar Húsvíkingar hafa sinn flugvöll og sína íbúabyggð. Þeir eiga að ráða því sjálfir.

Á sama hátt eiga Reykvíkingar að ráða því hvort þeir vilja hafa íbúðabyggð í Vatnsmýrinni og flugvöll uppi á Hólmsheiði eða flugvöll í Vatnsmýrinni og íbúðabyggð uppi á Hólmsheiði.

Það er ekki mál borgarfulltrúa í Reykjavík að finna flugvellinum stað.

Hvar slíkur flugvöllur á að vera þegar hann verður fluttur úr Vatnsmýrinni, um nýja staðsetningu á honum má vissulega kjósa á landsvísu.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.5.2010 kl. 13:04

10 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Sigurður

Okkur "dettur þetta verðmat í hug" af því að við höfum lesið þetta verðmat í skýrslum fræðimanna og sérfræðinga sem hafa gert mat á verðmæti Vatnsmýrarinnar, verði þar byggð miðborgarbyggð. Skýrslum sem voru á sínum tíma unnar fyrir Reykjavíkurborg.

Í alþjóðlegri samkeppni um miðborgarbyggð í Vatnsmýrinni sem haldin var fyrir nokkrum árum þá unnu og lögðu margir færustu sérfræðingar og hönnuðum heims fram 135 tillögur að slíkir byggð. Í þessum tillögum er gert ráð fyrir að í Vatnsmýrinni geti búið frá 30.000 upp í 170.000 manns.

Ef við miðum við að Vatnsmýrin verði skipulögð fyrir 60.000 manns og þar byggðar 25.000 íbúðir og byggingarréttur per íbúð verði seldur á 3 milljónir, þá er verðmæti þessa byggingaréttar 75 milljarðar. Þá er allt verslunar- og atvinnuhúsnæðið eftir.

Ef eitthvað er þá eru þessir 70 milljarðarnir vanmat á þessum 300 hektara "mýrarflákum" í miðbæ borgarinnar.

Þú verður að átta þig á því Sigurðar að Vatnsmýrin er lang verðmætasta land á Íslandi. Land sem Reykvíkingar fá í dag ekki svo mikið sem leigu fyrir í dag.

Nú er komið að því að setja hagsmuni Reykjavíkur í fyrsta sætið hjá borgarfulltrúum borgarinnar og nýta þau verðmæti í borgin á.

Látum verðmætin í Vatnsmýrinni vinna okkur út úr atvinnuleysinu og samdrættinum sem nú þrúgar borgarbúa.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.5.2010 kl. 13:19

11 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Þetta er dásamleg stærðfræði. Mér þykja þetta vera vafasamir draumórar og hallast heldur að samsæriskenningum um gróðavon einstaklinga, sem sjá í hyllingum arðinn af uppbyggingu 60 þúsund manna Breiðholtsbyggðar í Vatnsmýrinni.

Engu að síður, tökum saman svolitla tölfræði.

MIÐBORG Í TÖLUM

• Íbúar hverfisins eru 8.618 íbúar á 4.530 heimilum.

• Heildarstærð hverfisins er 3,6 km2 þar af er 2,1 km2 byggt land.

• 4.080 íbúar eru á hvern km2 af byggðu landi.

GRAFARVOGUR Í TÖLUM

• Íbúafjöldi hverfisins er 18.030 á 6.216 heimilum

• Heildarstærð hverfisins er 14 km2 og þar af er byggt land 7,7 km2.

• 2.330 íbúar eru á hvern km2 af byggðu landi.

BREIÐHOLT Í TÖLUM

• Íbúafjöldi hverfisins 20.646 á 7.678 heimilum.

• 5,5 km2 heildarstærð hverfis þar af eru 4,7 km2 byggt land.

• 4.440 íbúar eru á hvern km2 af byggðu landi.

VATNSMÝRI Í TÖLUM (samkvæmt framtíðardraumum pistlahöfundar)

• Íbúafjöldi hverfisins 60.000 á 25.000 heimilum.

• 3 km2 heildarstærð hverfis þar af eru 3 km2 byggt land (gef mér að allt landið verði byggt, engin græn svæði innan þessara 300 ha).

• 20.000 íbúar eru á hvern km2 af byggðu landi.

Það er sem sagt verið að halda á lofti ágæti þess að vera með nærri fimmfaldan byggðaþéttleika á við Breiðholtið og nífaldan þéttleika á við Grafarvog.

Einnig er vert að benda á að samkeppnin var haldin á meðan heimsins mesta fasteignabóla var að ná hámarki og "færustu sérfræðingar og hönnuðir heims" lögðu fram tillögur að verkum sem þeir gætu hagnast verulega á.

Ég er hræddur um að mér þætti kjánalegt að kokgleypa málflutning þeirra sem sjá sölu Vatnsmýrarinnar sem patentlausn á fjárhagsvanda borgarinnar.

Sigurður Ingi Jónsson, 15.5.2010 kl. 20:42

12 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Sigurður

Eins og ég sagði hér fyrir ofan þá gerðu þær skipulagstillögur sem bárust í samkeppninni um Vatnsmýrina ráð fyrir að þar verði 30.000 til 170.000 manna byggð.

Rétt er það hjá þér að verulegur munur er á úthverfabyggðinni í Grafarvogi og væntanlegri miðborgarbyggð í Vatnsmýrinni. Það er svipað og bera saman miðborgarbygðina í kringum Strikið í Kaupmannahöfn og einbýlishúsahverfin í Grafarvogi hvað þéttleika varðar.

Mér skilst að þessar skipulagstillögur séu aðgengilegar hjá Listasafni Reykjavíkur. Þú ættir að drífa þig og skoða þessar tillögur. Þá munt þú sjá að þrátt fyrir þennan mikla þéttleika þá gera allar þessar skipulagstillögur ráð fyrir töluvert af grænum svæðum.

Þetta er bara svo stórt landsvæði, 300 hektarar.

Hvað varðar hinn fjárhagslega ávinnig af gerð miðborgarbyggðar í Vatnsmýrinni þá stendur þetta gamla verðmat frá 2005 upp á a.m.k. 70 milljarða.

Þar fyrir utan koma síðan um ókomin ár fasteingajöld af þessum 25.000 íbúðum. Þú ert svo slunginn í reikningi að þér mun ekki verða skotaskuld úr að reikna árlegar tekjur borgarinnar af fasteignagjöldum af 25.000 íbúðum að ógleymdu verslunar- og atvinnuhúsnæðinu.

Það er alveg sama hvernig þú reiknar dæmið, þetta er win / win staða fyrir borgina og íbúa hennar og við sem eigum þann draum að í Vatnsmýrinni verði byggð ein glæsilegast miðborg í Evrópu, við fáum þann draum okkar uppfylltan.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 15.5.2010 kl. 21:38

13 Smámynd: Sigurður Ingi Jónsson

Stærðfræðin er dásamlegt verkfæri, sem má bæði nota og misnota. Í dag standa um 3.000 íbúðir auðar og óseldar í Reykjavík. Að auki eru 4.300 auðar lóðir sem klafi á eigendum sínum, aðallega borginni. Ekki veit ég hvaða margföldunarstuðul þarf til að fá réttan íbúðafjölda á þessar lóðir, en á hverri lóð gæti risið allt frá einbýli upp í 20 íbúða blokk. Miðað við 1.800 íbúða þörf á ári þá fara þessar íbúðir og lóðir sem nú þegar eru til langt með að duga næsta áratuginn. Og til gamans, þá var borgarstjórn búin að margfalda einhverjar milljónir sinnum allar þessar lóðir, en situr nú uppi með óseldar lóðir og kostnað vegna gatnagerðar, holræsa og veituframkvæmda. Þú hlýtur að skilja vonbrigðin vegna þessa.

Sigurður Ingi Jónsson, 15.5.2010 kl. 22:24

14 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Auðar íbúðir út um allt segir þú. Bankamenn fóru á stað og sögðu að um 3.000 nýjar og hálfbyggðar íbúðir standi í dag auðar á höfuðborgarsvæðinu.

Smiðir frá Trésmíðafélaginu fóru af stað og töldu í nýjum hverfum borgarinnar þær íbúðir sem þeir sáu auðar og íbúðir sem byrjað var að byggja. Þeir töldu ekki íbúðir á lóðum sem þar sem ekkert var byrjað að byggja á. Smiðirnir tölu rúmlega 900 tómar og hálfbyggðar íbúðir.

Hvort íbúðirnar eru um 900 eða 3.000, það breytir ekki því að fasteignamarkaðurinn hefur verið frosinn frá því haustið 2007 þegar lausafjárkreppan skall á og bankarnir drógu sig út af íbúðalánamarkaðnum og skildu Íbúðalánasjóð einan eftir á þeim markaði. Nú í haust hefur fasteignamarkaðurinn verið frosinn í 3 ár.  Í ár og á næstu árum munu stærstu árgangar Íslandssögunnar fagna 25 ára afmælinu sínu. Í þessum  árgöngum eru um og yfir 4.000 manns. Í haust þá munu um 12.000 Íslendingar hafa fagnað 25 ára afmælinu sínu frá því fasteignamarkaðurinn fraus haustið 2007.

Nýjustu spár sérfræðinga gera ráð fyrir því að fasteignamarkaðurinn fari í gang eftir 3 ár. Það þýðir að um 24.000 mann hefur haldið upp á 25 ára afmælið sitt frá því fasteignamarkaðurinn fraus haustið 2007 og þar til hann fer í gang aftur 2013.

Hvort heldur þessar íbúðir sem eru "auðar út um allt" eins og þú segir eru 900 eða 3.000 þá er þessi fjöldi íbúða eins og upp í nös á ketti þegar þessi 24.000 manns fer loks af stað að stofna sín eigin heimili og kaupa íbúðir.

Ef við breytum aðalskipulagi Reykjavíkur í sumar eins og við hjá Reykjavíkurframboðinu viljum gera og skipuleggjum miðborgarbyggð í Vatnsmýrinni þá mun það passa fínt að við verðum þá komin með tilbúið deiliskipulag í Vatnsmýrinni þegar skriðan fer af stað á ný 2013 og verðum þá tilbúin að lóðir til sölu fyrir þá ungu Íslendinga sem velja að búa í miðborg í stað úthverfanna. Úthverfa sem kalla á að hver fjölskylda eigi tvo bíla og aki a.m.k 100 km á dag með tilheyrandi kostnaði, slysahættu, mengun og sóun á frítíma sem annars væri hægt að eyða með fjölskyldunni eða sinna áhugamálum.

Þetta mál snýst um hagkvæmni í rekstri heimilanna. Þetta mál snýst um lífsgæði. Þetta mál snýst um að bjóða þeim Íslendingum sem vilja búa í miðborg í stað úthverfa upp á þann valkost að geta búið á Íslandi og notið þeirra lífsgæða að búa í miðborg, fyrir þá sem það vilja. Þetta mál snýst um að Reykjavík bjóði upp á sömu valkosti í búsetu og aðrar borgir Evrópu.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 16.5.2010 kl. 00:41

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband