Af hverju nýtt framboð til Borgarstjórnar?

Ástæður þess að hópur fólks vinnur nú að nýju framboði til borgarstjórnar í Reykjavík nú í vor eru margar. Við sem komum að undirbúningi þessa framboðs eigum sum hver langt starf að baki í grasrótinni í flokkum fjórum sem gjarnan ganga undir nafninu fjórflokkurinn. Þeir sem hafa kynnst því starfi þekkja það, að þegar kemur að því að verja á hagsmuni Reykjavíkur gagnvart öðrum sveitarfélögum en sérstaklega þó gagnvart landsbyggðinni þá er það bara þannig að fjórflokkurinn leggur þá gjarnan til hliðar hagsmuni Reykjavíkur. 

Það að hagsmunum Reykjavíkur hafi verið ýtt til hliðar þegar hagsmunir Reykjavíkur og landsbyggðarinnar rekast á um það vitna mörg dæmi. Ég nefni hér nokkur: 

  • Sundabraut, eitt helsta baráttumál Íbúasamtaka Grafarvogs og Reykjavíkur um árabil, er dottin út af vegaáætlun.
  • Skerjabraut er dottin út af vegaáætlun.
  • Stærstur hluti tekna til vegagerðar kemur vegna gjaldtöku á eldsneyti hér á Höfuðborgarsvæðinu. Framlög til vegaframkvæmda á Höfuðborgarsvæðinu voru í fyrra, lækkuð úr því að vera 25% af framkvæmdafé Vegagerðarinnar, í það að vera í ár 2,5%. Engin hreyfði mótmælum hér í Reykjavík þegar þetta var ákveðið.
  • Reykjavík var klofin í tvennt og gerð að tveim kjördæmum. Til hvers? Til að auðvelda einhverja útreikninga sem hvort sem er eru gerðir í tölvum? Nei, þetta var og er pólitísks aðför að Reykjavík og tilgangurinn að minnka vægi og slagkraft borgarinnar með því að kljúfa borgina á landsvísu í tvennt.
  • Í dag er rætt um að setja veggjöld á allar akstursleiðir út úr Reykjavík. Engin nefnir á nafn að gera um leið slíkt hið sama við akstursleiðirnar út frá Akureyri, Ísafirði eða Egilsstöðum.
  • Þá var Reykjavíkurborg var látin leggja til án endurgjalds lóð undir nýjan spítala við Hringbraut.
  • Ekki nóg með það. Reykjavíkurborg var á síðasta kjörtímabili látin gefa skóla í einkaeigu flottustu og dýrustu lóðina á Íslandi. Lóðin við hliðina á Nauthólsvík í Vatnsmýrinni var tekin undir einn af þeim fjölmörgu háskólum sem hafa sprottið hér upp á síðustu árum. Reykjavík fékk ekki krónu fyrir þessa lóð og þessi gjörningur að sveitarstjórn gefi einkaaðila verðmæti sem metin eru á milljarða króna er með ólíkindum. Í ljósi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis þá er full þörf á að opinber rannsókn verði gerð á þessum milljarða gjafagjörningi. 

Hvergi kristallast vandamál okkar Reykvíkinga samt betur en í Vatnsmýrinni. Við kusum í löglegum kosningum flugvöllinn burt úr Vatnsmýrinni fyrir 9 árum. Það eina sem hefur gerst í þessu máli er að ríkið og fjórflokkurinn hefur á þessum 9 árum unnið að því að festa flugvöllinn í sessi. Við erum öll búin að heyra flesta borgarfulltrúa fjórflokksins lýsa því yfir að þeir séu fylgjandi því að Vatnsmýrin verði tekin undir miðborgarbyggð. Tugir skipulagstillagna eftir færustu hönnuði heims að slíkri miðborgarbyggð rykfalla nú í skjalageymslum borgarinnar. Það hefur verið meirihluti fyrir því í mörg ár í borgarstjórn Reykjavíkur að Vatnsmýrin verði tekin undir slíka byggð. Samt gerist ekkert í þá átt. Þvert á móti á nú að byggja nýja flugstöð við Reykjavíkurflugvöll. 

Ástæðan er öllum ljós sem vilja horfast í augu við raunveruleikann. Hendur borgarfulltrúa fjórflokksins eru bundnar fyrir aftan bak í þessu máli eins og í svo mörgum öðrum hagsmunamálum Reykjavíkur. Flokksvaldinu er beitt í þágu þröngra hagsmuna ákveðinna landshluta að aðila. Vegna þessa hafa áratugum saman legið ónýtt verðmæti í formi byggingalóða í Vatnsmýrinni sem metnar eru á um 70 milljarða á verðlagi ársins 2005. Verðmæti sem Reykvík hefur hingað til ekki getað nýtt. Núverandi samgönguráðherra studdur af landsbyggðinni og með aðgerðarleysi borgarfulltrúa fjórflokksins ætlar sér að koma í veg fyrir að Reykjavík geti um ókomin ár nýtt sér þessi verðmæti. Samgönguráðherra er að hugsa um allt aðra hagsmuni en þá að Reykjavík fái notið þeirra verðmæta sem falin eru í Vatnsmýrinni. Hann hugsar fyrst og fremst um eigið kjördæmi og það fólk sem hann hefur sitt umboð frá sem þingmaður. 

Sveitarstjórnarmenn hér á Höfuðborgarsvæðinu hafa lítinn áhuga á því að í Vatnsmýrinni rísi ein glæsilegasta miðborg í Evrópu. Þeir sjá þá fram á að þeim mun ganga verr að selja lóðir á Völlunum og í Kórahverfinu þegar fasteigna- og byggingamarkaðurinn byrja taka við sér á ný á miðju næsta kjörtímabili. 

Í þeim mikla samdrætti og því mikla tjóni sem hér hefur orðið, samdrætti sem er að bitna mjög harkalega á íbúum Höfuðborgarsvæðisins þá er sú stund upp runnin að borgarstjórn Reykjavíkur verður fyrst og fremst að standa vörð um eigin hagsmuni með sama hætti og aðrar sveitarstjórnir eru gera. Það er ekki að hugsa um hagsmuni Reykjavíkur að láta 70 milljarða liggja ónýtta í Vatnsmýrinni í einni mestu kreppu og samdrætti sem hefur riðið yfir Reykjavík frá lýðveldisstofnun. 

Þegar við horfum yfir þetta svið og á þá staðreynd að sá sem leiðir stjórnarandstöðuna í borginni er jafnframt varaformaður síns flokks á landsvísu, þá er ljóst að báðar hendur þessa manns eru bundnar fyrir aftan bak í þessum stóru hagsmunamálum þar sem takast á hagsmunir Reykjavíkur og landsbyggðarinnar. Rætt er um það að núverandi borgarstjóri komi með einhverjum hætti inn í forystuna í sínum flokki á fyrirhuguðum landsfundi í sumar. Bara það að borgarstjórinn er orðin kandídat til æðstu embætta í flokknum á landsvísu bindur hendur borgarstjóra. Ætli borgarstjóri sér meiri frama í pólitík á næstu árum þá mun borgarstjóri aldrei fara fram gegn vilja meirihluta landsbyggðarinnar. Staðan er einfaldlega sú að engin borgarfulltrúi sem ætlar sér frama á landsvísu innan fjórflokksins getur beitt sér í málefnum Vatnsmýrarinnar.  

Hver á þá að gæta hagsmuna Reykjavíkur í þessum stóru málum? Hverjir eru með óbundnar hendur til að taka þá slagi sem þarf að taka til að verja hagsmuni Reykjavíkur? Hver ætlar að leiða þá vinnu að sækja þessa 70 milljarða sem liggja í Vatnsmýrinni til hagsbóta fyrir Reykjavík? Enginn?  

Við Reykvíkingar höfum horft upp á fjórflokkinn hér í borginni takast að gera hið ómögulega. Gullgæs okkar, Orkuveitan,hefur verið rekin þannig að hún er nánast gjaldþrota. Fjórir meirihlutar með fjóra borgarstjóra skiptust á að stjórna borginni á síðasta kjörtímabili. Kjörtímabilið endaði svo með því að allir voru búnir að sænga hjá öllum. Allir leikararnir í þeim leik, með einni eða tveim undantekningum, stilla sér nú upp á ný og bjóðast til að halda áfram að stjórna borginni og munu að öllu óbreyttu gera það næstu fjögur árin með sama "galskap" og á síðustu árum. 

Það er á þessum tímapunkti sem mönnum eins og mér er ofboðið. Eina leiðin sem ég sé út úr þessum ógöngum og eina leiðin til að höggva á þessa hnúta sem mörg hagsmunamál borgarinnar eru í, er að hér komi fram í borginni nýtt framboð sem er ekki háð fjórflokknum og þeim valdaklíkum og þeim sérhagsmunum sem stjórna fulltrúum hans. Slíkt framboð sem gengur fyrst og fremst erinda Reykjavíkur í borgarstjórn er það sem þarf. Ef slíkt framboð fengi einn borgarfulltrúa og ef Reykjavíkurframboðið verður með í næsta meirihluta þá fellur flugvöllurinn úr af aðalskipulagi Reykjavíkur strax í sumar og á svæðinu verður samþykkt að reist verði blönduð miðborgarbyggð. Um leið og það gerist verður allt þetta land veðhæft.

Ef Reykjavíkurframboðið nær einum manni inn og verður í vor hluti af nýjum meirihluta í borginni þá verður byrjað að selja lóðir í Vatnsmýrinni á næsta kjörtímabili.

Við þá sem vilja hafa flugvöllinn áfram í Vatnsmýrinni og vilja koma í veg fyrir að Vatnsmýrin verði tekin undir miðborgarbyggð og að borgin innleysi þessa 70 milljarða inn í borgarsjóð, segi ég.  

Það sem er gott fyrir höfuðborgina það er gott fyrir allt landið.  

Við þá sem vilja tryggja að Reykjavík standi vörð um sín stærstu hagsmunamál, vilja tryggja að tekið verði á núverandi óreiðurekstri í fyrirtækjum borgarinnar og vilja bæta við nýjum valkosti í búsetu okkar Íslendinga, valkosti sem allar þjóðir nema við bjóðum upp á, það er, búsetu í alvöru miðborg, þá er engin annar kostur í stöðunni en snúa baki við fjórflokknum í komandi borgarstjórnarkosningum og vinna og stuðla að því að nýtt afl og nýtt fólk komist til áhrifa í borginni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Halldór Jónsson

Sæll Herr Kollege Friðrik

Þú athugar ekki að Vatnsmýrrkosningin var ómarktæk.Flugvallarvinir sniðgengu hana.  85 % kjósenda vill hafa flugvöllinn kyrran í Vatnsmýrinni. Þú hefðir heldur átt að veðja á flugvöllinn kjurt og fá fleiri  atkvæði þannig.

Bestu kveðjur samt en ekki er ég trúaður á árangurinn.

Halldór Jónsson, 29.4.2010 kl. 12:33

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Halldór

Í mínum huga snýst þátttaka í stjórnmálum ekki um það að velja sér afstöðu í ákveðnum málum í þeim tilgangi að reyna að fá sem flest atkvæði.

Í mínum huga snýst þátttaka í stjórnmál um framtíðarsýn, hugsjónir og taka afstöðu í þeim dægurmálum sem upp koma á hverjum tíma út frá þeirri framtíðarsýn og hugsjónum.

Fyrir mér snúast málefni Vatnsmýrarinnar um framtíðarsýn og það hvernig borg við viljum byggja og bjóða komandi kynslóðum upp á. Svipað og þegar borgarstjórn Edinborgar ákvað um 1750 að láta hanna og byggja þar nýja miðborg, miðborg sem hefur lokkað til sín fleiri ferðamenn en nokkuð annað á Skotlandi.

Það að vilja byggja miðborg í Vatnsmýrinni eftir einhverri af þeim frábæru tillögum sem margir fremstu hönnuðir heims sendu inn í skipulagssamkeppnina um Vatnsmýrina fyrir tveim árum, það er framtíðarsýn sem mér hugnast og vil gjarnan gera hvað ég get til að hún verði að veruleika.

Hins vegar veit ég að í þessu einstaka máli verðum við seint sammála og ekkert er eðlilegra en á þessu máli séu skiptar skoðanir.

Það er jú lýðræðið sem stjórnar för og ræður því hvort slík byggð rísi í Vatnsmýrinni og hæðartakmörkunum á húsum í Kvosinni verður einhvern tíma aflétt eða hvort miðbær Reykjavíkur verður um ókomin ár í heljargreypum flugvallarins.

Við sem viljum miðborgarbyggðina ætlum okkur að standa fyrir einni alvarlegustu tilraun sem gerð hefur verið hingað til svo að það geti orðið.

Fáum við einn mann inn, þá verður byrjað að selja lóðir í Vatnsmýrinni á næsta kjörtímabili, sannaðu til.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 29.4.2010 kl. 14:31

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband