Miðvikudagur, 10. mars 2010
Stjórnin lifði af þjóðaratkvæðagreiðsluna. Samstöðu nú krafist um atvinnumálin.
Það er ljóst að ríkisstjórnin hefur lifað af þjóðaratkvæðagreiðsluna um Icesave. Engin fór í fýlu, engin fór í panikk og stjórnarsamstarfið heldur áfram með Icesave málið í ákveðnum farvegi.
Með Icesave í farvegi þá er það tvennt sem helst brennur á þjóðinni í dag. Það eru atvinnumálin og vandi heimilanna.
Ýmislegt hefur verið gert varðandi skuldamál heimilanna en þar er áfram knúið á um úrbætur. Stórt skref var sigið í dag þegar kynnt var nýtt frumvarp sem tekur á gjaldþrotum einstaklinga. Með þessu frumvarpi á að stytta þann tíma í fjögur ár sem halda má kröfum gangandi á gjaldþrota einstaklinga. Í dag er þetta fólk dæmt um aldur og æfi úr leik í samfélaginu. Sá mikli forsendubrestur sem hér varð er að valda því að þúsundir einstaklinga horfast i augun við slíka framtíð. Gangi þetta frumvarp eftir þá munu þúsundir fjölskyldna og aðstandendur þeirra anda léttar. Gríðarlegu fargi yrði þá létt af mörgum. Verði lög sem þessi samþykkt þá mun skapast miklu meiri ró í samfélaginu.
Við sérstakar aðstæður er þörf sértækra aðgerða. Slíkra aðgerða er nú þörf.
Enn ein holskefla gjaldþrota og uppsagna er að ganga yfir bygginga- og verktakaiðnaðinn og atvinnuleysið stígur hratt þessar vikurnar.
Það er ljóst að í atvinnumálum verður líka að grípa til sértækra aðgerða. Slagkraftur atvinnulífsins er lítill. Allra augu beinast því að ríki, sveitarfélögum og lífeyrissjóðunum og beðið eftir að þessir aðilar geri eitthvað.
Mikil þörf er að samstöðu og samvinnu allra flokka og allra hagsmunaaðila ætli menn að snúa hjólunum við og hefja hér uppbyggingu og framfarasókn. Á meðan þessi ríkistjórnin situr þá er i dag einfaldlega gerð krafa til þess að þingmenn vinni saman hratt og örugglega að því skapa hér aðstæður sem gefa af sér ný störf og auknar tekjur þannig að þjóðin megi vinna sig út út þessu ástandi.
Mynd: Göngustígurinn upp Esju á vetrarsólstöðum.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 01:16 | Facebook
Athugasemdir
"Þess vegna þarf að beita öllum ráðum , brjóta gamlar hefðir og venjur til að tryggja velsæld hópsins sem allt byggist á, framtíð Íslands." úr pistli frá 5.desember 2008 http://jennystefania.blog.is/blog/jennystefania/entry/735135/, ef ég má.
Sorglegt hvað stjórnvöld eiga erfitt með að tileinka sér "multitask".
Þetta atriði sem þú bendir á varðandi hryllilega stöðu einstaklinga og heimila þessa lands, hefur algjörlega verið hundsað, dissað eins og sumir mér nákomnir myndu kalla það. En heill og hamingja þessa hóps er akkerið, plankinn, viðspyrnan, grunnurinn að endurreisn efnahagslífisins.
Hefur þessi mikilvæga "stofnun" í efnahagsjöfnu Íslands fundið fyrir einhverri viðleitni til þess að rétta stöðu hennar, nei, þvert á móti. Endurreisn Íslands virðist eiga að byggjast á endurreisn hrunverja og að "stofnunin kennd við einstaklinga og heimili" sé blóðmjólkuð þar til hún flýr við illan leik, eða gefst upp og getur ekki meir.
Jenný Stefanía Jensdóttir, 10.3.2010 kl. 06:27
Alþingi ber ábyrgð á því hvernig komið er. Bæði fyrir og eftir svarta september 2008. Axlar alþingi ábyrgð sína yfirleitt? Mér sýnist að breytilegur meirihluti alþingis sé á vinsældaveiðum í skoðanakönnunum. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru einnig tæki þeirra til að létta af sér ábyrgð. Stjórnvöld eru á valdi þingsins og þaðan er ekki neins stuðnigs að vænta. Á meðan svo er finnst mér býsna fánýtt að skammast út í ríkisstjórnina nema fyrir að sitja. Hún situr á meðan þingið segir henni að gera það. Verst að geta ekki sparkað forsetanum sem er greinilega orðinn til vandræða.
Gísli Ingvarsson, 10.3.2010 kl. 13:40
Ber að skilja ykkur svo að nú eigi Alþingi að kalla til starfa byggingaverktaka og svo Caterpillarinn sem lengi hefur verið þessari þjóð ómissandi við að tortíma íslenskri náttúru til að laða hingað orkukaupendur á borð við Río Tinto?
Skyldi engum hafa komið til hugar að bjóða útlendu fólki að gjöf svosem eins og 1000 blokkaríbúðir fokheldar að sögn en sem eru nú við hættumörk hruns vegna þess að einhver gleymdi að setja sement í steypuna? Verktakar þurftu að flýta sér svo tap bankanna yrði ekki ekki reiknað á mælikvarða fiskbúðar í úthverfi.
Reyndar sýnist mér nú að hver dagur sé orðinn síðastur til að byggja fangelsi og það í metnaðarfyllri kantinum. Það var nefnilega bullandi hagvöxtur í þjófnaði, nauðgunum, mansali og ýmsum öðrum "fæðingarhríðum" markaðsvæðingar þessarar þjóðar til dýrðar vestrænum lífsgildum.
Óburðug er þessi ríkisstjórn að vísu en ekki jafn mörgum Íslendingum eins lífshættuleg og sú ríkisstjórn sem hún var fengin til að losa þjóðina við.
Árni Gunnarsson, 10.3.2010 kl. 16:10
Það er löngu kominn tími til þess að þingmenn vakni upp og afnemi vísitölutryggingarnar.
Maður sem ég þekki tók tæpra 8 milljóna lán fyrir nokkrum árum. Hann hefur borgað af láninu eins og um var samið. Núna segir hann mér af skuldin hafi hækkað í 10 milljónir þrátt fyrir reglulegar afborganir. Ég spurði hann hvort hann hefði fengið þessar tvær milljónir. Hann neitaði því og sagði að hann væri samkvæmt lögum neyddur til þess að borga þessar 2 milljónir til viðbótar, þótt hann hafi aldrei fengið þessa peninga. Þessum 2 milljónum er beinlínis stolið af manninum.
Samkvæmt mínu mati þá er þetta ekkert annað en hrein og bein glæpastarfsemi sem er haldið uppi með lögum frá sjálfu Alþingi. Þetta er öllum þingmönnum, núverandi og fyrrverandi, til skammar.
Hvernig í ósköpunum er hægt að réttlæta svona brjálæði ? Hvað kemur það málinu við þótt gengi krónunnar breitist eitthvað ? Er ekki gengi annara gjaldmiðla en krónunnar, sífellt að breitast ? En það þekkist hvergi svona vísitölutrygginga bull nema á Íslandi ?
Meiningarlaust blaður þingmanna um að "eitthvað þurfi að gera til að leysa vanda heimilanna", er ekki lengur boðlegt.
Þetta vísitölutrygginga vitleysu þarf að afnema og það strax í dag og jafnframt að endurreikna öll lán og afborganir minnst tvö ár aftur í tímann.
Ef Alþingi og ríkisstjórn treystir sér ekki til þess, þá þarf annað af tvennu; - fá utanþingsstjórn sem verði skipuð öðrum en þingmönnum, - ellegar að þing verði rofið og efnt til nýrra kosninga.
Tryggvi Helgason, 10.3.2010 kl. 16:45