Þriðjudagur, 26. janúar 2010
Mun fjárbóndinn á Svörtuloftum minnka gjöfina á garðann?
Á morgun tekur fjárbóndinn á Svörtuloftum og húskarlar hans ákvörðun um hvort minnka eigi gjöfina á garðann næsta mánuðinn. Hrakviðrið sem hefur geisað undanfarin misseri er að mestu gengið niður og því ætti að vera óþarfi að halda öllu fénu á húsi.
Þó bóndi hafi minnkað nokkuð gjöfina undanfarna mánuði þá velur féð samt að hanga á húsi. Það þorir ekki út þó veðrið sé orðið skaplegt og víða megi finna græn tún og engi.
Eftir mikinn fjárfellir undanfarinna missera er féð hrætt og allir vilja vera gætnir en bóndi veit líka að það eru lítil búhyggindi að hafa féð allt á húsi.
Eina leiðin til að ná fénu út er að minnka gjöfina á garðann. Ef bóndi minnkar gjöfina þá verður féð svangt og byrjar að leita út. Þar bíða víða grænir balar og brekkur. Minnki bóndi verulega gjöfina þá má jafnvel ætla að aðkomuféð sem mikið er af og hraktist inn í fjárhúsin á Svörtuloftum í ofsaveðrum síðustu missera, það fari líka að kíkja út á grænar nálar.
Smalarnir bíða óþreyjufullir eftir að bóndi minnki gjöfina á garðann svo eitthvað af fénu fari að kíkja út og fari að bíta úr nálinni. Eins og góðum smölum sæmir þá vita þeir um marga góða bala og brekkur þar sem féð verður fljótt vænt og bústið komist það þar á beit.
En meðan fjárbóndinn á Svörtuloftum gefur jafn vel á garðann og nú þá heldur féð sig innandyra því féð gerir meira en halda holdum á fóðrum hjá bónda, það fitnar. Á meðan staðan er þannig þá sitja smalarnir aðgerðarlausir og ekkert fé bítur grænu balana og brekkurnar.
Á meðan ekkert fé bítur balana og brekkurnar gengur hratt á stabbann hjá bónda.
Hvað gerir fjárbóndinn á Svörtuloftum á morgun?
Mynd: Göngustígurinn upp Esju á vetrarsólstöðum.
Spáir lækkun stýrivaxta | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:11 | Facebook
Athugasemdir
Já góð samlíking. Ég er einn af þeim sem er á þessu gæðafóðri og hef ekki skilið hvers vegna ég þarf ekkert að hafa fyrir þessu.
Hverja er verið að vernda? Er þetta aðferð til að friða stóru erlendu hrútana sem eru fastir með peningana sína á Íslandi?
Björn (IP-tala skráð) 26.1.2010 kl. 20:42