Verði neyðarlögunum hnekkt falla 1.200 milljarðar á ríkissjóð.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að ef málaferlin vegna neyðarlagana tapast og við samþykkt ríkisábyrgð á Icesave skuldbindingunni þá falla 1.200 milljarðar á ríkissjóð.

Ef þessi gjörningur Alþingis að breyta forgangsröðum krafna verður dæmdur ólöglegur og felldur úr gildi þá verða engir fjármunir teknir úr þrotabúi Landsbankans og þeir fjármunir notaðir til að greiða Icesave. Fyrrum lánadrottnar og núverandi kröfuhafar í þrotabúi Landsbankans eignast þá allt það fé sem er í þrotabúinu, eins og lög stóðu og standa til.

  • Gerum okkur grein fyrir því að það fé sem nota á til að greiða Icesave, því fé ætlum við okkur að stela með neyðarlögum af núverandi kröfuhöfum þrotabús Landsbankans. 
  • Gerum okkur grein fyrir því að Icesave samningurinn gengur út á það að þrír aðilar ætla að skipta á milli sín þýfi sem stolið var frá helstu fjármálastofnunum heims. 

Lítill fugl hvíslaði því að mér að ástæðan fyrir því að Bretar og Hollendingar hafa sótt það svo fast að fá ríkisábyrgð á Icesave samninginn er að Bretar og Hollendingar gera ráð fyrir að neyðarlögin muni á endanum ekki halda. Þeir gera ráð fyrir því að íslenska ríkið muni á endanum tapa málaferlum vegna neyðarlagana. Það þýðir að það verður ekki hægt að nota þá fjármuni sem nú liggja og lágu inni í þrotabúum bankana til að tryggja innistæður hér heima og erlendis.

Þetta álit sem kom frá ESA að "líklega"myndu neyðarlögin halda var pantað álit af Bretum og Hollendingum til að róa Íslending og fá þá til að samþykkja ríkisábyrgðina.

Ég skil ekki hvað þingið er að hugsa þegar það samþykkir 1.200 milljarða ríkisábyrgð á skuldbindingu sem engin veit í dag hvort verður greidd úr þrotabúi Landsbankans eða fellur öll á ríkissjóð. 

Tapist málaferlin vegna neyðarlagana og við búin að samþykkja ríkisábyrgð á 1.200 milljarða Icesave samningi, í hvaða stöðu erum við þá?

Nei, fellum þennan Icesave samning í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er ekki forsvaranlegt að samþykkja 1.200 milljarða ríkisábyrgð í þeirri von að málaferli vegna neyðarlagana vinnist. 

Ég er gamblari en ekki svona mikill.

 


mbl.is Meirihluti segist styðja Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er ríkisábyrgðin ekki "einungis" 700 milljarðar. Eiga Bretar og Hollendigar ekki að standa skil á hinum 500 milljörðunum.

En mjög áhugavert blogg.

jon (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 11:13

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Jón

Lestu umsögn InDefence, sjá hér, um Pari Passu, jafnstöðusamninginn. Þar kemur fram að Bretar og Hollendingar fá 48% af þrotabúi Landsbankans í sinn hlut. Verðmæti þrotabúsins er um 1.200 ma.

Bretar og Hollendingar fara fram á þetta því þeir segjast vera búnir að greiða út 500 ma. vegna innistæðna sem þeir hafa tryggt og eru umfram þessa lámarkstryggingu 20.887 evrum per reikning. Það að tryggja þessa lágmarkstryggingu það kostar 630 ma. og það er hlutur okkar Íslendinga að sjá um það. Við fáum 51% af þrotabúinu til þess.

Ef það verður síðan raunin að ekki má taka það fé sem er í þrotabúi Landsbankans og setja það upp í þessar innstæður sem þessi þrjú ríki eru að tryggja, þá lendir þetta allt á okkur.

Nú þekki ég ekki nákvæmlega hvernig Icesave samningurinn er orðaður varðandi þessa ábrygð og vel má vera að við eftir málaferli sleppum með 700 ma. En Bretar og Hollendingar munu örugglega láta reyna á þetta og sækja þessa 1.200 ma. Þá mun reyna á það hvernig ríkisábyrgðin er orðuð í þessum Icesave samningi. Munum það að slíkt mál verður rekið fyrir Hollenskum dómstólum og dæmt eftir breskum lögum.

Hvernig heldur þú að það fari?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 12:08

3 identicon

Sæll Friðrik, þú virðist hafa sett þig nokkuð inn í málin. Leiðréttu mig ef ég fer rangt með en er þetta Icesave mál ekki nokkurnvegin svona:

1.Óábirgir íslenskir bankamenn stofna útibú frá Landsbankanum í Englandi og svo í Hollandi og safna gríðarlegum fjármunu inn á svokallaða Icesave reikninga. Lofa furðulega háum vöxtum. Margir bíta á agnið.

2. Ísland hefur staðið rétt að reglum Evrópusambandsins um innistæðutryggingasjóði fyrir bankana m.a. Landsbankann og þar með talið Icesave. Reglurnar eru stórgallaðar og snemma á árinu 2008 eru erlendir aðilar farnir að ókyrrast vegna hættunar á að sjóðirnir reynist tómir fari bankarnir á hausinn.

3. Íslensk stjórnvöld gera lítið í málinu og reyna að telja umheiminum trú um að allt sé í gúddí. Þegar svo allt hrynur með bauki og bramli í okt 2008 þá lofar Geir Haarde að allar innistæður á Íslandi verði tryggðar af ríkinu.

4. Á daginn kemur að innistæðutryggingasjóðirnir eiga varla krónu upp í skuldbindingar sínar. Bretar og Hollendingar ákveða upp á sitt eindæmi að greiða innleggjendum á Icesave reikninga í viðkomandi löndum,tapaðar innistæður. (vel yfir lágmark og jafnvel upp í topp)

5. Íslenska ríkið skipar skilanefnd yfir þrotabú Landsbankans sem vera ber þar sem þetta er íslenskt fyrirtæki.  Skilanefndin sér um hagsmuni kröfuhafa og semur við Íslenska ríkið um stofnun íslensk banka (fyrir íslenskar innistæður og útlán) úr þrotabúinu.   Til að gæta sanngirni og að kröfum Alþj.gj.sj. er útbúið stórt skuldabréf af hálfu hins nýja banka, til þrotabúsins.

6. Þrátt fyrir að Íslenska ríkið beri enga ábyrgð á því hvort reglur ESB um innistæðutryggingasjóð virki í raun þá halda ýmsir því fram að ábyrgðin sé siðferðisleg vegna linkindar íslenska stjórnkerfisins við að taka á vanda sem augljóslega stefndi í óefni. Á sama máta telja aðrir að ESB hafi ekki náð að vernda saklausa íslenska borgara fyrir m.a. vondum stjórnarháttum með reglum sem áttu að gilda fyrir efnahagssvæðið.(Hvaða "vernd" fá þeir þá við aðild?)Endalausar deilur og útursnúningar í gangi á báða bóga og almenningur orðinn verulega ruglaður í ríminu.

7 Bretar og Hollendingar gera kröfu á að Íslendingar ábyrgist a.m.k. innistæðutryggingasjóðin verði ekki nóg til í þrotabúinu.  Beita fyrir sig Alþjóða gjaldeyrissjóðnum í því og hóta að spilla fyrir aðildarumsókn Íslendinga. (sem virkar sem hótun á furðu marga)

8. Í atinu gleymast almennir kröfuhafar hverjir hafa fullt eins mikinn forgang á eigur þrotabúsins eins og innistæðutryggingasjóðurinn tómi.

9. Íslensk stjórnvöld reyna ítrekað að ganga að afarkostum Breta og Hollendinga, trúlega til að geta fengið lán erlendis, forsetinn slær ítrekað á puttana á stjórnvöldum með því að vísa málinu til þjóðarinnar.

Ég er ekki að reyna að búa til einhvern einkasannleik heldur að leitast við að fá einhverja mynd á stöðuna. Endilega gagnrýnið og umfram allt betrumbætið.Sérstaklega hvað varðar rök fyrir því að ísl. greiði Icesave og að þeir eigi ekki að greiða Icesave kröfurnar.

Ef einhver skýr samantekt um málið er einhversstaðar til þá væri fínt að fá að vita hvar.

Bjarni Gunnlaugur (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 13:09

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Bjarni

Þetta er raun sönn mynd af málinu að mínu mati.

Ég hefði þó vilja bæta við eftirfarndi setningu í lið 3:

Til að tryggja allar innistæður að fullu í bankakerfi sem er 10 sinnum stærra en landsframleiðsla Íslands þá ákveður ríkistjórnin og Alþingi að taka / ræna með neyðarlögum þá fjármuni sem þarf til að tryggja þessar innistæður af þeim fjármálastofnunum sem voru í viðskiptum við Íslensku bankana.

Eins hefði ég viljaða bæta við nýjum lið nr. 10:

Það er löng leið frá þeim bresku og hollensku innistæðueigendum sem tóku yfirvegaða ákvörðun að hætta sínu fé í erlendum netbanka sem bauð eina hæstu ávöxtun sem sést hefur í Evrópu frá stríðslokum. Banka sem var skráður í einu minnsta hagkerfi heims með einn ótryggasta gjaldmiðil í heimi. Þetta fólk tók yfirvegaða ákvörðun þegar það lagði sitt fé inn á Icesave reikninga Landsbankans.

Það er löng leið frá þessu fólki og að bændum og sjómönnum á Íslandi sem nú eru kallaðir til ábyrgðar og eiga að standa þessu fólki skil á því fé sem það tapaði þegar Landsbankinn fór í þrot. Bændur og sjómenn á Íslandi tóku engar yfirvegaðar ákvarðanir í þessu máli og voru grandalausir að þessar innistæður væru á þeirra ábyrgð.

Að kalla bændur og sjómenn á Íslandi til ábyrgar nú og krefja þá og börn þeirra um greiðslu á þeim innistæðum sem töpuðust í gjaldþroti Landsbankans, það er stærsti glæpurinn í þessu máli öllu.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 13:25

5 Smámynd: Haukur Nikulásson

Friðrik þinn skilningur á Icesave er eins og minn. Bjarni Gunnlaugur hefur þetta í ágætu samhengi fram að 4. lið þegar neyðarlögin eru sett. Þau eru brot á stjórnarskránni og munu falla í sæmilega vönduðu dómsmáli.

 Það var engin þörf á setningu neyðarlaganna nema til að gæta hagsmuna innistæðueigenda í landinu. Ráherrar og alþingismenn voru að sjálfsögðu í hópi fjármagnseigenda. Með því snéru stjórnvöld sér á fullu gegn þeim sem skulda í landinu og almenningi öðrum sem á að standa undir stolna sparifénu.

Alveg á sama hátt og það er biluð tilhugsun að almenningur eigi að borga skuldir einkafyrirtækja og þar með Icesave er nákvæmlega jafn bilað að almenningur standi undir greiðslu sparifjár sem búið var að stela nokkurn vegin að fullu út úr bankakerfinu af helstu eigendum þess. Spariféð sem Geir lofaði að vernda var í raun gufað upp.

Þjóðin er í tveimur meginhópum efnahagslega. Fjármagnseigendur sem vonast til að neyðarlögin haldi og eru það með tilbúnir að taka þátt í greiðslu Icesave til að halda illa fengnum hlut. Hinn hópurinn er eignalaus almenningur sem verður að sæta eignaupptöku til að sparifjáreigendur fái sitt upp í topp.

Hver sér réttlætið í því að bankarnir sem eyðilögðu allt eru að leysa til sín eignir almennings til að afhenda fjármagnseigendum spariféð sem búið var að stela áður af þeim sömu. 

Haukur Nikulásson, 25.2.2011 kl. 13:28

6 Smámynd: Haukur Nikulásson

Ég hef verið að skrifa á sama tíma og þú Friðrik. Áfram erum við sammála.

Það er deginum ljósara að þeir sem vilja samþykkja Icesave myndu ekki hagnast á því að neyðarlögin verði felld úr gildi. Það er því auðvelt að skilja sjónarmið þeirra til að samþykkja samninginn. En samþykki þessa fólks er falið í lyginni um að við verðum að standa við samninga, umheimurinn muni fyrirlíta okkur, ESB aðildin sé í uppnámi og hvað eina sem er hræðsluáróður til að fela sannleikann um að halda sparifjárþýfinu hjá sér á kostnað almennings.

Haukur Nikulásson, 25.2.2011 kl. 13:35

7 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Haukur

Sammála.

Við verðum að gera okkur grein fyrir því að þegar bankarnir fóru í þrot þá töpuðu þeir sem áttu fé inni í bönkunum 70% til 90% af þessum fjármunum sínum. Þeir sem voru með sitt fé í Landsbankanum hefðu líklega tapað því öllu.

Að ætla sér að ræna milljörðum frá helstu fjármálafyrirtækum heims til að bæta innistæðueigendum þetta tjón og sækja afganginn, sem vantar upp á að þrotabú Landsbankans geti tryggt allar innistæður að fullu, í vasa almennra launþega er hreint ótrúlegur  fjármálagjörningur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 13:39

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Haukur

Þú veit nú hvert hugur minn stefnir varðandi ESB.

Mitt mat er það að ágreiningur Íslands milli einhverra tveggja ríkja innan ESB um einhver peningamál í kjölfar þessarar miklu kreppu skiptir nákvæmlega engu máli varðandi þessa umsókn og þetta umsóknarferli. 

Þegar kemur að samningum við Íslands, hvað heldur þú að Ítölum, Frökkum og Pólverjum sé ekki nákvæmlega sama þó einhver óuppgerð deila sé í gangi milli Íslands, Bretlands og Hollands um uppgjör á einhverjum banka sem fór í þrot?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 13:47

9 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Og Haukur við verðum að gera okkur grein fyrir því að kröfuhafar í þrotabú gömlu bankana sem eru öll helstu fjármálafyrirtæki heims eru nú með í gangi málaferli sem ætlað er að hnekkja neyðarlögunum.

Færustu lögspekingar heims vinna nú að því að fá neyðarlögunum hnekkt. Verði neyðarlögunum hnekkt þá eignast þessir kröfuhafar þrotabúið. Verðmæti þess er um 1.200 milljarðar. Þessir aðilar munu ekki gefa þessa 1.200 milljarða eftir baráttulaust.

Verði neyðarlögunum hnekkt fyrir dómi þá verða innistæður ekki lengur forgangakröfur í þrotabúum bankana.

Það þýðir að við getum ekki notað eignir þrotabús Landsbankans til að greiða Icesave.

Ef við samþykkjum ríkisábyrgð á Icesave og neyðarlögunum verður hnekkt og við fáum ekki krónu úr þrotabúi Landsbankans upp í Icesasve þá þarf ríkissjóður samt að borga þessar 1.200 ma.

Þess vegna hafa Bretar og Hollendingar sótt það svo fast að fá þessa ríkisábyrgð. Þeir óttast að neyðarlögunum verði hnekkt og ef það gerist þá verður að vera ríkisábyrgð á Icesave þannig að við neyðumst til að taka fé úr ríkissjóði til að borga Icesave.

Verði neyðarlögunum hnekkt þá falla 1.200 milljarðar á ríkisjóð.

Þess vegna má ekki samþykkja Icesave.

Það má ekki veita þessa ríkisábyrgð.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 14:51

10 Smámynd: Haukur Nikulásson

Friðrik, þú ert eini maðurinn sem ég hef rekist á sem vill ekki samþykkja Icesave en vilt skoða inngöngu í ESB. Flestir aðrir virðast tengja þessa tvo hluti ófrávíkjanlega saman. Þeir sem vilja borga Icesave vilja yfirleitt ESB aðild og þeir sem vilja ekki borga Icesave séu á móti ESB aðild (t.d. ég). Þú gætir auðveldlega lent á safni með þessa sérstöku skoðanablöndu Friðrik

Haukur Nikulásson, 25.2.2011 kl. 15:28

11 identicon

Friðrik.

Falli neyðarlögin, hvað verður þá um innlendu innistæðurnar? Voru þær ekki tryggðar í botn m.a. með neyðarlögunum?

Mér finnst nokkuð langsótt hjá þér að halda að B&H séu að óska eftir ríkisábyrgðinni til að tryggja sér þessa 1200 milljarða falli áðurnefnd lög. Þeir vita að Íslendingar geta ALDREI borgað þessa upphæð.

Snorri (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 16:49

12 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Af hverju eru þeir á að sækjast eftir ríkisábyrgð?

Af hverju þessi hörðu viðurlög yrðu einhverjir hnökrar á greiðslum?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 17:17

13 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Borga og ekki borga Snorri.

Þeir vita að við liggjum með 1.800 ma. í lífeyrissjóðum.

Skv. Icesave 2 gátu þeir hirt að okkur Landsvirkjun og aðrar eignir ríkisins. Af hverju heldur þú að þeir hafi sett slík ákvæði inn í samninginn? Hvað voru þeir að undirbúa með slíkum ákvæðum?

Af hverju vildu þeir geta hirt af okkur Landsvirkjun?

Ég þekki ekki nákvæmlega þau viðurlög sem þeir geta beitt skv Icsave 3 verði dráttur á greiðslum.

Best að lesa sér til um það.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 17:41

14 identicon

Friðrik, Ríkið á ekki þessa 1.800 ma.

Snorri (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 18:02

15 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Það veit ég vel.

Okkar menn stálu fé af ekkjum og líknarfélögum í Bretalandi og Hollandi.

Heldur þú að þeir hafi nokkurt samvikubit að sauma að okkur?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.2.2011 kl. 18:56

16 identicon

Mæltu manna heilastur Friðrik.  Þetta er mál sem þarf að ná til allrar þjóðarinnar áður en ákvörðun um Icesave verður tekin.  Ég sé að þú átt stóran og mikinn hóp bloggvina það væri gott fyrir þjóðina að þessi hópur tæki þetta mál upp því að fjölmiðlar gera það örugglega ekki.

gunnar rúnarsson (IP-tala skráð) 25.2.2011 kl. 19:24

17 Smámynd: Elle_

Mæltu manna heilastur, Friðrik, eins og Gunnar sagði að ofan.  Góður pistill.  Hinsvegar, ef Friðrik ætlaði að fá hjálp bloggvina sinna gegn ICESAVE, yrði að undanskilja Ólínu Þorvarðardóttur sem ég horfi á hér til vinstri.  Hún er ein hættulegasta jarðýtan fyrir kúguninni og stóð hnarreist og stolt og talaði hátt í alþingi þann 30. desember, 09 og sagðist vera stolt af að taka ábyrgð á ICESAVE 2 (á 500 - 1000 MILLJÖRA KÚGUN GEGN ÞJÓÐINNI OG GERA HANA AÐ NÝLENDUÞRÆLUM) og segði JÁ. 

Elle_, 25.2.2011 kl. 22:40

18 Smámynd: Elle_

Nei, átti að vera: 500 - 1000 MILLJARÐA KÚGUN.  Ýtti vistlaust á e-a takka.

Elle_, 25.2.2011 kl. 22:43

19 identicon

Hverjir eru að fá neyðarlögunum hnekkt? Þau eru og voru fáránlegur gerningur og hafa ekki verið rædd að neinu marki.

Anna Benkovic (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 01:13

20 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Finnst þetta nú ekki vera nein rök gegn samningi um Icesave. Bendi á að verði neyðarlögin feld sem fái telja líklegt þá myndu þessir 1200 milljarðar ekki hverfa þó engin samningur lægi fyrrir sem og að Nýí Landbankinn myndi líka falla þar sem að hann yfirtók allar innistæður Íslendinga sem og ýmsar aðarar eignir Gamla Landsbankans.  Með þennan samning í höndum erum við þó með þann skilning viðsemjenda að okkur beri bara að borg innistæðutrygginar. Held að honum yrði ekki hnekkt. Bendi líka á að það er nú kannski full mikið í lagt að nota lögskýringar Indefence. Veit ekki að í hópnum sé nokkur lögskýrandi sem er sérfróður í þessum málum.

 Bendi á að forsetinn sagði þegar hann synjaði undirskrift samningana að Indefence hefði haft það helst á móti honum að Ragnar Halls ákvæðiið væri ekki þarna inni.  Annast hefu þeir ekki sett sig á móti því að skrifað væri undir.  Ragnar sjálfur segir að í samningnum sé samt búið að ganga frá forgangi okkur að eignum Landsbankans fyrst eins og hann talaði um.

Magnús Helgi Björgvinsson, 26.2.2011 kl. 01:36

21 identicon

http://www.svipan.is/?p=20217

er ekki búið að "samþykkja" neyðarlögin og Icesave væri ekki á dagskrá án þess?

Anna Benkovic (IP-tala skráð) 26.2.2011 kl. 02:44

22 Smámynd: Einar Karl

ÞAð boðar ekki gott þegar menn fara að skálda upp söguna. Punktarnir hjá Bjarna Gunnlaugi í punkti #3 eru sumir hverjir alrangir og settir upp í vitlausri tímaröð. Skoðum þetta, Bjarni Gunnlaugur segir:

"4. Á daginn kemur að innistæðutryggingasjóðirnir eiga varla krónu upp í skuldbindingar sínar. Bretar og Hollendingar ákveða upp á sitt eindæmi að greiða innleggjendum á Icesave reikninga í viðkomandi löndum,tapaðar innistæður. (vel yfir lágmark og jafnvel upp í topp)

5. Íslenska ríkið skipar skilanefnd yfir þrotabú Landsbankans sem vera ber þar sem þetta er íslenskt fyrirtæki. Skilanefndin sér um hagsmuni kröfuhafa og semur við Íslenska ríkið um stofnun íslensk banka (fyrir íslenskar innistæður og útlán) úr þrotabúinu. Til að gæta sanngirni og að kröfum Alþj.gj.sj. er útbúið stórt skuldabréf af hálfu hins nýja banka, til þrotabúsins."

Nýi bankinn var stofnaður um hæl, um leið og sá gamli féll, til að almenn bankastarfsemi innanlands gæti haldið áfram.

Það var ekki útbúið eitthvað "stórt skuldabréf" vegna nýja bankans, fyrir öðru en eignum UMFRAM skuldir, sem fluttust til nýja bankans.

Bretar og Hollendingar greiddu út innstæður (að hluta) til Icesave reikningshafa EFTIR að nýi bankinn var tekinn til starfa og ljóst að íslenskar innstæður yrðu virtar 100% en Icesave innstæður skildar eftir í þrotabúinu, OG eftir íslensk stjórnvöld höfðu undirritað "Memorandum of Understanding" um hvernig skyldi leysa Icesave mál.

Ef farið er rangt með staðreyndir og forsendur er hætt við að ályktanir verði rangar.

Einar Karl, 26.2.2011 kl. 18:16

23 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Anna #21

Það liggur fyrir það "álit" ESA að þeir telja að neyðarlögin haldi. Það telja stjórnvöld á Íslandi líka.

Á þetta á hins vegar eftir að reyna fyrir dómstólum.

Kannski verður Héraðsdómur sammála ESA. Kannski ekki.

Kannski verður Hæstiréttur sammála Héraðsdómi. Kannski ekki.

Ert þú tilbúin að gambla með það að kannski falla 1.200 milljarðar á ríkisjóða og kannski ekki?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.2.2011 kl. 21:53

24 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Einar #22

Þetta er mikil saga og margþætt en ég held engin sé viljandi að afbaka hana.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 26.2.2011 kl. 21:56

25 Smámynd: Elle_

´Memorandum of Understanding´ er ekki lög, bara alls ekki, Einar Karl (22).   Óvitrir og skaðlegir embættismenn og stjórnmálamenn hafa ekki það vald að brjóta lög og stjórnarskrá og gera æsku landsins að nýlenduþrælum. 

Elle_, 26.2.2011 kl. 22:20

26 Smámynd: Einar Karl

Friðrik,

Þú ert "naív" ef þú heldur að menn séu ekki að mála söguna sínum litum, til að styðja "sinn" málstað.

Ég skil þennna punkt hjá þér sem pistillinn gengur út á. Þú málar þá mynd, sérstaklega í punkti #4, að Neyðarlögin hafi verið ansi bíræfin aðgerð. Þú heldur að Bretar og Hollendingar óttist að Neyðarlögin haldi ekki fyrir dómi, og að þess vegna vilji þeir ríkisábyrgð á Icesave láni til tryggingasjóðs.

Ég held ekki að neyðarlögin verði felld í dómstólum, vegna þess að það þurfti að grípa til neyðarúrræða, til að koma í veg fyrir allt hagkerfið hér lamaðist. Ég held að Bretar og Hollendingar séu alls ekki að semja um Icesave, til að geta fengið þá peninga tilbaka ef Neyðarlögin verði felld, þeir vita mætavel að við getum ekki greitt Icesave, ef ríkið þarf að greiða allan höfuðstólinn án þess að fá neitt úr þrotabúinu. Ekki gleyma að ef Neyðarlögin yrðu dæmd ólögleg er ríkið ekki bara með Icesave á bakinu, heldur bótaskylt vegna ALLS SPARIFÉS okkar sem við fengum tryggt á grundvelli breyttrar forgangsraðar skv Neyðarlögum.

Ég held að umheimurinn almennt (t.d. Bretar, Hollendingar, ESB, AGS) telji ekki neyðarlögin sem slík bíræfin, en að þeim finnist bíræfið að sumir (Forsetinn, þú og fleiri) teljið sjálfsagt að við fáum BÆÐI að nota neyðarlög til að vernda íslenskar bankainnstæður og búa til nýja banka OG sleppa samt alveg Icesave úr þeirri björgun (með ólöglegri mismunun) og taka enga ábyrgð á innlánstryggingasjóðnum.

Ég held að okkar grannlönd hugsi " OK, þið þurftuð að taka róttækar ákvarðanir og grípa til neyðarráðstafana, við skiljum það og virðum, EF þið bara gerið eitthvað LÍKA fyrir Icesave reikningseigendur."

Neyðarlögin voru vissulega eins og þú bendir á á margan hátt "bíræfin", þess vegna þurfum við stuðning umheimsins við þessari leið sem við fórum. Sá stuðningur gæti farið þverrandi með "Fck U" stefnu Forsetans og örgustu Nei-sinna.

Við skulum semja um Icesave, þar með er það hagur miklu fleiri en okkar að neyðarlögum verði ekki hnekkt og að hagkerfið hér styrkist og nái aftur flugi.

Einar Karl, 26.2.2011 kl. 23:35

27 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Einar.

Þetta er góð og gegn rök. Alveg rétt hjá þér, við "málum" hlutina ákveðnum litum.

Áhættan er samt til staðar að neyðarlögunum verði hnekkt. Þess vegna er það bagalegt að niðurstaða dómstóla skuli ekki liggja fyrir varðandi neyðarlögin áður en við samþykkjum ríkisábyrgð á Icesave.

Lægi fyrir dómsniðurstaða varðandi neyðarlögin þá liti málið allt öðru vísi út.

En hún liggur ekki fyrir.

Gleymum ekki styttunni af grísku gyðjunni Þemis, tákngervingi dómstólanna. Kona með bundið fyrir augun með vogarskálar í annarri hendi og sverði í hinni.

Gleymum því ekki að við eigum það undir Þemis hvort neyðarlögunum verður hnekkt eða ekki.

Það er ekki forsvaranlegt að gangast í 1.200 ma. ábyrgð vegna innistæðna sem voru lagðar inn á reikninga Landsbankans í Bretlandi og Hollandi. Við munum ekki þola það, falli þessar ábyrgðir að fullu eða að hluta á okkur.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 27.2.2011 kl. 00:11

28 identicon

Er ekki komin niðurstaða í hvert peningarnir fóru... þeir fóru ekki hingað heim - þeir fóru í að styrkja stöðu útibúanna í Hollandi og Bretlandi - svo lán til þeirra sjálfra og vildarvina  og viðskiptaaðila...

Lesið þá hvað gildir um reglugverk ESB um hvað gerist þegar sviksamleg viðskipti eiga sér stað...  

Ég kann eiginlega betur við að við einbeitum okkur að því hvað er gáfulegast að gera fyrir okkur í stöðunni og ekki að vera sífellt að velta okkur upp úr hvað aðrir hugsanlega -  mögulega - sennilega - líklega gætu trúlega verið jafnvel að hugsa um þetta mál... sérstaklega þegar að heilu greinarnar hafa verið skrifaðar út um allar koppagrundir um að okkur ber engin lagalaeg skylda til að borga þetta sukk...

Þetta hugarástand Icesave sinna er að verða ansi sjúklegt..

Anna Kristín Pétursdóttir (IP-tala skráð) 27.2.2011 kl. 03:01

29 Smámynd: Kristján Hilmarsson

Sæll Friðrik ! og takk fyrir glæsilegt innlegg sem jafnframt hefur komið af stað nokkuð málefnalegri umræði um málið en oftast er, varðandi furðu manna á því að þú sért andvígur Icesave en hlynntur aðild að ESB, vil ég bara segja að það er hárétt hjá þér ð þessu tvennu á ekki að blanda saman, sjálfur er ég ekki með afgerandi skoðun á því ennþá, finnst alltof lítið liggja fyrir enn sem komið er, en það hafa nú verið stuðningsmenn Icesave samnings sem oftast hafa bent á að B/H myndu hindra aðild ef ekki yrði samþykkt, einn af mörgum og misheppnuðum hræðslurökum.

En AGS "aðstoðin" og Icesave eru að mínu mati tvö skilgreind afkvæmi fjármálasukksins sem er búið að koma landinu (og fleirum) í þessa stöðu og í ljósi þess langar mig til að benda þér Friðrik á frétt frá ABC nyheter frá því í dag um stöðu Írlands og hvaða þátt "aðstoðin" frá AGS á í því hvenig málum er komið þar.

MBKV

KH

Kristján Hilmarsson, 28.2.2011 kl. 19:53

30 Smámynd: Elle_

Friðrik og Kristján, það hefur oft komið skýrt fram að bein tenging er milli Evrópusambandisns og ICESAVE og Evrópusambandið hefur gróflega misnotað vald sitt gegn okkur í málinu.  

Elle_, 2.3.2011 kl. 00:18

31 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæl Elle

Ég veit að lönd ESB hafa beitt sér í málinu gegn okkur.

Þetta mál hefur hins vegar ekki breytt afstöðu minni gagnvart ESB. Þessi lönd hefðu tekið þessa afstöðu til málsins hvort heldur við erum innan eða utan ESB.

Þetta mál hefur að mínu mati ekkert með það að gera hvort ég er hlyntur aðild eða ekki. Fyrir mér er þetta sitt hvort dæmið.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 2.3.2011 kl. 16:28

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband