Fellum Icesave þá verða Bretar, ekki við, að biðja um nýjar viðræður.

Nú þarf stjórn og stjórnarandstaða að ná saman um hvernig standa á að því að leiða þetta Icesave mál til lykta í ljósi breyttra tíma.

IMG_0003Bretar og Hollendingar líta svo á að þeir eru með samþykktan samning í höndunum. Það er vonlaust mál á núverandi tímapunkti að óska eftir nýjum samningaviðræðum jafnvel þó reynt verði tefla fram einhverjum sáttasemjara. Þetta var fær leið í haust, ekki nú.

Sú leið sem ég vil sjá stjórn og stjórnarandstöðu sameinast um er eftirfarandi:

  • Við höldum hér þjóðaratkvæðagreiðslu og við fellum þennan Icesave-2 samning með sóma.
  • Bretar og Hollendingar voru búnir að hafna Icesave-1 vegna þeirra fyrirvara sem þar voru. Ef við fellum Icesave-2 þá er engin ríkisábyrgð lengur til staðar á neinu.
  • Vilji Bretar og Hollendingar fá slíka ríkisábyrgð á þeim lánasamningi sem þeir hafa þegar gert og undirritað við Tryggingasjóð innlánseigenda þá verða þeir að koma og biðja Íslensk stjórnvöld um viðræður um slíka ábyrgð. 
  • Í framhaldi af þeim mikla viðsnúningi sem er orðin í afstöðu heimsbyggðarinnar í þessu máli, samanber viðhorfin sem komu fram í Silfri Egils í gær, afstöðu allra helstu viðskiptablaða Bretlands sem halda því blátt áfram fram að Íslendingar eiga ekki að borga krónu, þá eiga Íslensk stjórnvöld að ganga treg til nýrra viðræðna um slíka ábyrgð.
  • Látum Breta og Hollendinga hafa frumkvæði að því að hafa samband og óska eftir viðræðum. Vonandi bara að það líði eitt eða tvö ár þar til þeir hafa samband. Þá erum við komin út úr samstarfinu við AGS. Þær viðræður eiga þá að fara fram á Íslandi. Þær viðræður eiga í öllu falli ekki að fara fram á Bretlandi eða Hollandi.
  • Í þessum nýju samningaviðræðum eigum við að taka inn viðræður um  fjárhagstjónið sem hér varð þegar Bretar beittu hryðjuverkalögum í október 2008 á Seðlabanka Íslands, Kaupþing og Landsbankann og frystu allar eignir þessar banka inni á Bretlandi, þar á meðal gull- og gjaldeyrisforða ríkisins sem þar var geymdur. Það tjón má meta svipað og ef Bretar hefðu sent hingað sprengjuflugvélar og jafnað hálfa Reykjavík við jörðu. Okkur ber skylda til að krefjast bóta vegna þess tjóns sem hryðjuverkalögin hafa valdið, þar með talið fall Kaupþings. Gleymum því ekki að við veðjuðum á að Kaupþing myndi ekki falla. Seðlabankinn lánaði Kaupþingi stærsta lán Íslandssögunnar nokkrum dögum áður en Bretar felldu bankann með hryðjuverkalögum.
Í nýjum samningaviðræðum sem við færum í að ósk Breta eigum við að bjóða þeim eftirfarandi:
  • Bretar láta Icesave niður falla. Á móti láta Íslendingar allar kröfur niður falla vegna þess fjárhagstjóns sem hér varð þegar Bretar settu á okkur hryðjuverkalög. 

Er þetta ekki sanngjörn og eðlileg leið til að ljúka þessu máli?

Mynd: Göngustígurinn upp Esju á vetrarsólstöðum.

 


mbl.is Mjög gott skref
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nákvæmlega! Silfur Egils í gær var gulls ígildi.   Lyfti þjóðinni uppúr stólnum!

anna (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 20:05

2 identicon

Ég er sammála þér Friðrik að það er nær útilokað að nokkru verði breytt fram að þeim tíma sem þjóðaratkvæðagreiðslan fer fram. Það er ekkert annað en raunsætt mat. Að sjálfsögðu vildi maður að dagdraumar þjóðarinnar rættust sem hún gældi við horfandi á Silfur Egils í gær. Það er þó fremur kalt til lengdar að ylja sér við slíka drauma.

Hins vegar held ég að þér skjöplist með að það verði Bretar (Hollendingar) sem verði óþreyjufullir eftir nýjum samningum. Í Bretlandi taka við kosningar í maí eða júní, síðan væntanlega ný ríkisstjórn. Þegar þeir verða fyrst tilbúnir til samninga þá eru Íslendingar hins vegar komnir í nokkuð þrönga stöðu, sem allir vita um (hér er ég ekki að ljóstra upp neinu leyndarmáli): Afar þungar greiðslur íslenska ríkisins á árinu 2011 og raunveruleg hætta  á greiðslufalli fáist ekki erlend lán til að létta undir.

Menn hafa bent á að Bretar og Hollendingar hafi beitt Íslendinga fjárkúgun í aðdraganda núverandi samninga. Hvaðan í ósköpunum kom sú hugdetta að þeir verði vinsamlegri í samskiptum sínum við Íslendinga eftir höfnun á lögum nr. 1/2010?

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 20:16

3 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Ómar

Nú ert þú að blanda saman mörgum málum í eitt og gefur þér síðan ákveðna niðurstöðu.

  • Þú gefur þér að AGS standi ekki við yfirlýsingar um að blanda ekki saman fyrirgreiðslu sjóðsins og Icesave samningunum.
  • Þú gefur þér að Norðurlöndin láni okkur ekki fyrr en Icesave er endanlega frágengið.
  • Þú gleymir að við erum búin að fá um helminginn af lánunum sem við áttum að fá frá AGS. Gjaldeyrisforði Seðlabankans er í dag 460 milljarðar króna.
  • Þú gleymir að Landsvirkjun er komin fyrir vind.
  • Þú gleymir að Lífeyrissjóðirnir eru búnir að ná vopnum sínum og eru að koma á fullu inn í uppbygginguna hér heima.
  • Þú gleymir að búið er að endurreisa bankakerfið og erlendir aðilar eru að taka við Arion banka og Íslandsbanka. Þessir bankar munu nú fara að smyrja atvinnulífið.
  • Þú gleymir að samdráttur hagvaxtar var minni og atvinnuleysi var minna en allar spár gerðu ráð fyrir á árinu 2009.
  • Þú gleymir að vöruskiptajöfnuður hefur verið hagstæður í 14 mánuði samfellt.
  • Þú gleymir að margir hagfræðingar, seðlabankastjóri og fjármálaráðherra hafa sagt að væntanlega verður ekki þörf á að taka öll þessi lán sem okkur stendur til boða gegnum AGS.

Ómar, okkur liggur ekkert á að ljúka þessum Icesave samning, jafnvel þó það verði til þess að við fáum ekki öll lánin sem til stóð að við áttum að fá frá Norðurlöndunum.

Ég legg til að menn íhugi alvarlega að leysa þetta mál eins og ég lýsi í mínum pistli hér fyrir ofan.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.1.2010 kl. 20:39

4 identicon

Ég tek reyndar ekki mikið mark á yfirlýsingum AGS og Norðurlandanna, sem þú nefnir í fyrstu tveim punktunum. Ef grannt er skoðað þá er þeir mjög diplómatískir. Engar yfirlýsingar hafa komið að Norðurlöndin láni án þess að Icesave sé leyst. Allt sem sagt er er almenns eðlis, en þar sem eitthvað ákveðið er sagt þá hangir allt á Icesave (sumir hér kalla það hótanir). AGS lánar ekki án Norðurlandanna. Það eru því meiri líkur en minni á fjármálalegri einangrun.

Þú hefur hins vegar rétt fyrir þér að mestu hvað hina punktana varðar. Það er þess vegna sem greiðslufall er ekki öruggt 2011 þrátt fyrir einangrun. En það verður erfitt. Heildarmat mitt er því að Íslendingar verði fúsari en Bretar og Hollendingar að setjast aftur að samningaborðinu.

Ómar Harðarson (IP-tala skráð) 11.1.2010 kl. 21:15

5 Smámynd: Arnór Baldvinsson

Sæll Friðrik,

Ég vil bara benda á að það verður ekki þjóðaratkvæðagreiðsla um Icesave.  Þjóðaratkvæðagreiðslan er um lög til breytinga á upprunalegu Icesave lögunum sem voru samþykkt af Alþingi í byrjun September s.l.  Ef nýju lögin verða felld, þá standa eldri lögin óbreytt með fyrirvörunum sem Bretar og Hollendingar höfnuðu, en Icesave ábyrgðin er enn í fullu gildi.  Ef lögin verða samþykkt þá verður skuldabyrgði Íslands heldur þyngri heldur en upprunalegi samningurinn kveður á um ef ég hef hlerað rétt.  Ef þau verða felld þá liggur fyrir að eldri lögin lafa áfram þangað til eitthvað annað gerist sem getur aðeins orðið með samþykki Breta og Hollendinga.  Persónulega held ég að það sem þurfi eru menn í samninganefndina sem hafa bein í nefinu og stjórnmálamenn sem þora að taka á þessu máli.  Ég veit ekki hvort þessir aðilar finnast á Íslandi lengur. 

Kveðja,

Arnór Baldvinsson, 11.1.2010 kl. 21:25

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Arnór.

Sammála þegar þú segir að ef við fellum Icesave-2 lögin í þjóðaratkvæðagreiðslu þá standa Icesave-1 lögin frá því 28. ágúst sl.

Málið er að í þeim lögum er ákvæði þess efnis að Bretar og Hollendingar verða að samþykkja umrædda fyrirvara. Að öðrum kosti taka Icesave-1 lögin ekki gildi.

Bretar og Hollendingar eru í raun búnir að hafna þessum fyrirvörum. Þess vegna er þessi Icesave-2 lög komin til.

Þess vegna er það svo að ef við fellum Icesave-2 ef Bretar og Hollendingar hlaupa þá ekki til og samþykkja Icesave-1 þá taka lögin samkvæmt Icesave-1 aldrei gildi. Öll ríkisábyrgð fellur þar með niður.

Eftir stendur hinn undirritaði samningur Breta og Hollendinga við Innlástryggingasjóðinn en þessi samningur er þá án ríkisábyrgðar.

Þannig er þetta mál vaxið eins og ég skil það.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 11.1.2010 kl. 21:49

7 Smámynd: Ívar Pálsson

Vel gert, Friðrik. Icesave- fyrirvara- hrossaprangið frá því sl. haust (2009) er ekkert einhver lausn sem Hollendingar og Bretar geta gengið að sem öryggisneti þegar þeir höfnuðu henni á sínum tíma. Ábyrgð þingsins er amk. varla í gildi, enda skilyrt. Andstæðingarnir munu hnykkla vöðvana rétt fyrir og eftir þjóðaratkvæðagreisluna en við byrjum að ganga út frá núllinu eins og almennilegt samningafólk myndu gera.

Ívar Pálsson, 11.1.2010 kl. 22:22

8 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Styð þetta Friðrik.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 12.1.2010 kl. 02:05

9 Smámynd: Sigurjón Jónsson

Til þess að búa sig undir komandi viðskiptastríð við breta og hollendinga, er nauðsynlegt að huga að nýjum lánveitendum. Kínverjar eiga nóga peninga og þeir eru að vinna í því að styrkja stöðu sína utan Kína t.d. í Afríku. Það er ekki ólíklegt að þeir hafi áhuga á Norður Atlantshafi.

Sigurjón Jónsson, 12.1.2010 kl. 10:32

10 Smámynd: Hjálmtýr V Heiðdal

Það er mikil bjartsýni í afstöðu þinni Friðrik. Hvorki Bretar eða Hollendingar (þ.e. ríkin) hafa ástæðu til þess að hreyfa við samningum fram að þjóðaratkvæðagreiðslu. Ekki nema þá til að fullnusta þá þar sem þeir áttu að vera frágengnir í nóvember af okkar hálfu.

Er það ekki svo að þú metur menn í viðskiptum eftir því hvernig þeir standa í skilum gagnvart undirrituðum samningum?

Sama gerist á alþjóðasviðinu, það er bara þannig. Og þótt leiðarahöfundar Financial Times hafai vissa samúð með okkur sökum smæðar okkar þá skilar það sér illa inn í ráðuneytin í London. Því miður.

En það er alltaf gott að vera bjartsýnn en raunsæi verður einnig að vera í farteskinu.

Hjálmtýr V Heiðdal, 12.1.2010 kl. 10:43

11 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Hjálmtýr

Þú verður að átta því á því hver staðan er.

Icesave-2 samningurinn hefur ekki verið endanlega staðfestur og samþykktur. Um það snýst þjóðaratkvæðagreiðslan

Bretar og Hollendingar hafa þegar hafnað Icesave-1 samningnum með þeim fyrirvörum sem þar eru gerðir. Icesave-1 er því ekki í gildi.

Í dag er því engin undirritaður samningur í gildi sem við þurfum að standa við. Hins vegar eru í gildi lög og reglur. EFTA dómstóllinn sendi nýlega frá sér álit þar sem þeir komast að því að Neyðarlögin okkar þau muni halda. Samkvæmt virtustu lögmönnum Evrópu, m.a. Evu Joly, þá er mikið álitamál hvor og þá hve mikið okkur ber að boga, samanber alla umræðuna erlendis sem í dag er öll okkur í hag.

Íslenska ríkið hefur staðið við allar sínar fjárhagslegar skuldbindingar frá því landið fékk fullveldi 1918. Við skulum því ekki láta fríunarorð Breta og Hollendinga að við stöndum ekki við okkar samninga, að við borgum ekki okkar skuldir, við skulum ekki láta slík orð hafa áhrif á okkur. Við skulum ekki taka á okkur meiri skuldir en efni standa til vegna slíkra fríunarorða.

Það er ljóst að samningamenn Breta og Hollendinga hafa fundið veikan blett á okkur Íslendingum þegar þeir fóru að brigsla okkur um að við stæðum ekki við okkar samninga og Íslendingar borguðu ekki sínar skuldir. Þeir hafa nýtt sér þennan veika blett til hins ýtrasta. Vegna slíkra fríunarorða vill stór hluti þjóðarinnar nú taka á sig fjárhagslegar skuldbindingar langt út fyrir það sem lög okkar Íslendinga og reglugerðir ESB kveða á um.

Það er ekki að standa í skilum gagnvart undirrituðum samningum að taka á sig miklu meiri byrgðar er undirritaðir samningar kveða á um. Svo miklar birgðar að öllum er ljóst að viðkomandi mun eiga í mjög miklum erfiðleikum að standa við samninginn og 10% líkur eru á að viðkomandi lendi í greiðsluþroti.

Slík hegðun flokkast ekki að standa við samninga. Slík hegðun er hegðun kjánans sem lætur plata sig. Kjánans sem segist víst geta hoppað yfir lækinn þegar einhver segir hann huglausan af því hann vill ekki hoppa yfir. Það er kjáninn sem segir þá: "Ég get víst hoppað yfir". Allir vita að kjáninn er lítill og á mörkunum að hann geti hoppað yfir. Allir vita að það eru 10% líkur á að kjáninn lendi í læknum og þeir hlægja þegar þeir fylgjast með kjánanum reyna að hoppa yfir. Allir munu veltast um af hlátri detti kjáninn í lækinn.

Þetta mál, Hjálmar, hefur ekkert með það að gera að "standa í skilum við undirritanað samning".

Við endurreisum ekki eitthvað ímyndað fallið orðspor erlendis með því að leika kjánann gagnvart Bretum og Hollendingum.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 12.1.2010 kl. 11:44

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband