Sunnudagur, 11. október 2009
Að venju koma helstu fréttir af hruninu erlendis frá.
Enn á ný berast okkur Íslendingum helstu fréttir frá Íslandi í gegnum erlenda fréttamiðla. Ég hef oft kvartað yfir þessu og því hvernig íslenskir fréttamenn virðast forðast að taka á mörgum þeim málum sem snúa að hruninu.
Er það virkilega svo að íslenskir fjölmiðlar þora ekki og treysta sér ekki til að birta frétt eins og þessa um Sigurð Einarsson?
Er það virkilega svo að þeir leka slíkum fréttum til erlendra fjölmiðla því þeir treysta sér ekki til að birta þær sjálfir?
Löngum hefur verið rætt um að sjálfstæði íslenskra fjölmiðla væri lítið og þeir undir hæl eigendanna. Er það virkilega svo að það eru ákveðin svið og ákveðnir einstaklingar sem þeir mega ekki fjalla um nema með ákveðnum hætti?
![]() |
Fyrstur til að fá stöðu grunaðs manns |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook
Laugardagur, 10. október 2009
Það verður að koma formegt svar frá Noregi
Þetta er ekki boðleg pólitík og þetta eru ekki boðleg vinnubrögð að samskipti manna í þessu máli séu öll munnleg. Allar fyrirspurnir í þessu máli eru munnlegar eða með óformlegum tölvupóstum.
Það er ekki boðlegt að þetta mál sé sett þannig upp að almenningi sé gert að meta þetta mál út frá trúverðugleika forsætisráðherra annars vegar og trúverðugleika formanns Framsóknarflokksins hins vegar.
Það er ekki boðlegt að þetta mál sé skilið eftir í þessum "lásý" farvegi íslenskra stjórnmálamanna. Málinu lokað með "taktíkinni", orð gegn orði.
Það er bara ein leið til að loka þessu máli.
Ég skora á ríkisstjórnina að senda formlegt erindi á Norsku ríkisstjórnina og á Stórþingið. Norska ríkisstjórnin og þingið verða þá að afgreiða málið. Þá kemur frá þeim formlegt svar.
Það er orðið nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að fá formlegt svar þannig að ef þetta var bara fagurgali í þingmönnum norska Stórþingsins í eyru þessara ungu manna frá Íslandi þá þarf það að koma í ljós. Þangað til þetta svar kemur trúa þessir ungu menn þessum fagurgala. Það gerir líka stór hluti þjóðarinnar.
Það verður að ljúka þessu máli með formlegu svari frá norska þinginu. Það er einfalt, eitt bréf með afrit á fjölmiðla.
Þetta tekur 5 mínútur, eitt frímerki og nokkrar faxsendingar og málið dautt.
Boltinn er þá hjá Norðmönnum og sátt um málið á Íslandi.
![]() |
Ummælin fráleitur þvættingur |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:12 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 9. október 2009
Bretar sukka á kostnað íslenskra skattgreiðenda
Hún er ævintýraleg þessi frásögn af ferð stjórnenda bresku verslunarkeðjunnar Iceland til Flórída. Stjórnendur í 800 verslunum eyða 800 milljónum í skemmtiferð til Disney World í boði skilanefndar Landsbankans.
Ekki kemur þetta sukk til með að auka verðmæti eigna Landsbankans sem eiga að ganga upp í Icesave. Eins og við vitum öll þá mun það sem upp á vantar lenda á íslenskum skattgreiðendum.
Það verða því ég og þú sem munum á endanum borga þessa ferð þessa fólks til Flórída.
Ljóst er að "móralinn" hjá Bretum virðist vera að sólunda og sukka með eignir Landsbankans í Bretlandi.
Hver er það sem er að gæta hagsmuna íslenskra skattgreiðenda og er verja eignir Landsbankans í Bretlandi?
Það er ljóst að sá aðili annað hvort sefur á verðinum eða er sjálfur á fullu að sólunda og sukka með eignir Landsbankans.
![]() |
Yfirmenn Iceland í 800 milljóna króna ferð í Disney |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:01 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 8. október 2009
"Ótrúlegri þvælu" svarað á AMX
Það er alltaf mjög sérstakt þegar menn nota orðfæri eins og það sem er í fyrirsögn þessa pistils. Það gerði einn af okkar helstu forystumönnum í orkugeirnanum, aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku, í pistli sínum á AMX í vikunni, sjá hér, þegar hann svarði pistli Ágústs Þórhallssonar, sjá hér. Ágúst vitar í grein sinni til pistla á þessu bloggi hér. Sæstrengur vestur um haf mjög álitlegur og Borgum Icesave með rafmagni til Bretlands gegnum sæstreng.
Tilefni þessara gífuryrða aðstoðarframkvæmdastjórans er að leikmenn eru að leyfa sér að giska á hvert eitt mesta og best geymda leyndarmál allra tíma á Íslandi er.
Leyndarmálið hvaða verð álfyrirtækin eru að greiða fyrir raforkuna.
Á meðan það verð er ekki upplýst og staðfest af Landsvirkjun þá eru öll verð ágiskun og öll verð jafn trúverðug.
Það kemur því á óvart að aðstoðarframkvæmdastjórinn velur að vitna í þessu samhengi í Hagfræðistofnun HÍ að þeirra niðurstaða væri að orkuverð til "stóriðju" væri 25-28 mills, sem samsvarar í dag 3,3 kr.
Þetta er jafn "upplýsandi" og annað í umræðunni. Síldarbræðslur og allt að því garðyrkjubændur eru skilgreind sem "stóriðja" á Íslandi. Verð til "stóriðju" hefur lítið með verð til "álvera" að gera.
Tryggvi Bjarnason kom inn á bloggið hjá mér og fullyrti að verðið til álvera væri 27 aurar á kWh. Hvort þetta eru "gamlar" krónur án 100% gengisfallsins veit ég ekki. Í "gömlum" krónum væri þetta um ein króna.
Við værum kannski eitthvað nær sannleikanum, þó ég efist um það, ef við horfðum til blaðaviðtalsins fræga við forstjóra Alcoa sem haft var við hann á ferð hans um S-Ameríku þegar hann sagði blaðamanni að þeir væru að borga 15 mills á Íslandi, í dag um 1,8 kr/kwh.
Hver svo sem sannleikurinn er í þessu máli þá ætti enginn að "úthúða" samferðafólki sínu þó það leyfi sér að giska á þetta verð meðan það liggur ekki fyrir.
Varðandi söluverð á raforku í Evrópu sem aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku gagnrýnir í pistli sínum þá er rétt að minna á að ESB er að leggja á kolefnisskatta á alla raforku sem unnin er með kolum og olíu. Þessir skattar leggjast á 2012. Bretar gera ráð fyrir að fjöldi kolaorkuvera loki í framhaldi. Fyrirséður er okurskortur í Bretlandi á næstu árum. Þessir skattar munu ekki leggjast á græna orku frá Íslandi sem kæmi þangað um sæstreng. Þessi græna orka verður seld á sama verði og þetta skattlagða "kolarafmagn". Þess vegna kemur meira í hlut þeirra sem selja græna raforku en þeirra sem selja "kolaraforku".
Ekki skil ég hvað aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku er að fara þegar hann ræðir í þessari grein sinni um skatta, orkutap, og sölu á rafmagni allan sólahringinn o.s.frv.
Ég held menn hljóti að telja það sanngjarnt að þegar verið er að kynna á þeim vettvangi sem þetta blogg er, útreikninga á verði á raforku þá geri menn ráð fyrir að seldar gígavattsstundir á ári séu seldar gígavattsstundir.
Eigum við nokkuð að vera að gera mönnum það upp að þeir séu svo vitlausir að þeir reikni með því að þeir geti selt orku sem tapast í flutningum?
Hvað varðar fullyrðingar aðstoðarframkvæmdastjórans að íslensk orkufyrirtæki hafi lagt mat á orkusölu um sæstreng og hún hingað til ekki verið metin arðsöm þá er þessi fullyrðing í mótsögn við fullyrðingu fyrrverandi forstjóra Landsvirkjunar sem nú síðast í haust lét hafa það eftir sér að sala á raforku í gegnum sæstreng væri kostur sem ætti að skoða.
Öll álfyrirtæki landsins eru aðilar að Samorku og greiða þar inn árgjöld. Aðstoðarframkvæmdastjóri Samorku þiggur því laun sín frá þessum fyrirtækjum.
Þó miklir hagsmunir séu hér á ferð og menn fulltrúar ákveðinna hagsmunaaðila þá er það skylda allra að ræða þessi mál á skynsamlegum nótum og helst án gífuryrða.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 13:18 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 7. október 2009
Allt í rétta átt varðandi skuldir heimilanna
Tillögur félagsmálaráðherra sem hann hefur kynnt varðandi lausnir á vanda heimilanna eru allar í rétta átt. Hann og hans samstarfsfólk og aðrir þeir sem hafa komið að því að móta þessar tillögur eiga þakkir skildar.
Ég er viss um að það er þungu fargi létt af mörgum fjölskyldum þegar þær sjá til hvaða ráðstafanna ætlunin er að grípa.
Þessar fjölskyldur sjá fram á að það á að skera þær niður úr þeirri snöru sem hrun krónunnar á síðustu 18 mánuðum hefur sett um háls þeirra.
Þetta er eitt stærsta málið í dag. Eins og öll hin "stóru" málin þá er þetta mál að bjarga 20.000 fjölskyldum frá gjaldþroti, það er í sjálfu sér ekki flokkspólitískt mál. Allir flokkarnir á þingi eru með svipaðar tillögur og allir sammála um að það eigi ekki að setja þetta fólk í gjaldþrot.
Nú þegar félagsmálaráðherra er búinn að leggja þetta mál fyrir þingið þá fær það sína meðferð þar.
Ég hef trú á því að eftir að þingið er búið að fara höndum um þetta frumvarp og þingmenn allra flokka og hagsmunasamtök hafa komið fram með sín sjónarmið þá verði þetta góða frumvarp félagsmálaráðherra orðið enn betra.
Á bak við þessar 20.000 fjölskyldur sem eru í mestum vanda eru 50.000 til 60.000 manns. Þegar allt þetta fólk er farið að geta sofið rólega um nætur og veit að það mun ekki missa íbúðina eða húsið sitt þá mun hinum 260.000 íbúunum þessa lands einnig líða betur.
Mjög mikilvægur grunnur hefur þá verið lagður að því að hefja hér uppbyggingu á ný.
![]() |
Ekki nógu langt gengið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:53 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 6. október 2009
Steingrímur eða AGS eru að blekkja
Annað hvort er Steingrímur eða Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn, AGS, að blekkja.
AGS hefur hingað til haldið því fram að það vanti nauðsynleg gögn um stöðu bankana til þess að þeir geti afgreitt næsta lán til okkar.
Steingrímur heldur því hér fram að stjórnvöld hafi afhent öll gögn sem AGS hafi beði um.
Að það hafi verið niðurstaða fundar fjármálaráðherra með framkvæmdastjóra AGS í Tyrklandi að við höfum lagt allt fram sem við áttum að leggja fyrir sjóðinn getur ekki staðist. Eitthvað hlýtur að vanta fyrst sjóðurinn hefur ekki fyrir löngu tekið mál Íslands fyrir og afgreitt það. Engin ákvörðun liggur fyrir hvenær það verður gert.
Setur AGS það sem skilyrði að niðurstaða fáist fyrst í Icesave eða er það vegna þess að enn vantar göng um stöðu bankana?
Við hljótum að gera þá kröfu að þjóðin verði upplýst um það hvað það er sem vantar til þess að AGS afgreiði þetta lán.
Er vandamálið Íslensk stjórnvöld eða AGS?
![]() |
Gagnlegur fundur með AGS |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:39 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 6. október 2009
Niðurskurðurinn á fjárlögum fer í peningamarkaðssjóðina
Þeir fjármunir sem ríkið lagði inn í peningamarkaðssjóði bankana, þessir 83 milljarðar, það er nánast sama upphæð og nú á að skera niður fjárlög ríkisins um.
Þessi niðurskurður á ríkisútgjöldum bitnar illa á mörgum. Ekki eru menn heldur beint sáttir við þær skattahækkanir sem þarf að ráðast í.
Þeir sem áttu fé í peningamarkaðssjóðum þegar bankarnir fóru í gjaldþrot fyrir ári, það fé tapaðist þá að stórum hluta. Bréf í peningamarkaðssjóðum eru forgangskröfur þegar gjaldþrota bankar eru gerðir upp þannig að eigendur þeirra hefðu að öllu eðlilegu fengið eitthvað upp í kröfur sínar hjá Kaupþingi og Glitni. Þeir sem áttu í sjóðum Landsbankans hefðu örugglega tapað miklu.
Eins voru allar innistæður í bönkum yfir 20.778 evrur að mestu tapað fé fyrir ári síðan. Þeir sem áttu meira en 20.778 evrur á sínum reikningum voru í kröfuröðinni eins og hver annar lánadrottinn í komandi uppskiptum á þrotabúum bankana. Ljóst var að lítið myndi koma í þeirra hlut.
Fyrir ári síðan voru engir peningar til inni í bönkunum, allt fé þeirra var horfið, ótrúlegt verðhrun var á öllum mörkuðum, og þeir sem áttu og geymdu sitt fé í þessum bönkum voru búnir að tapa stórum hluta af þessum peningum sínum.
Aðrir geymdu sitt fé annarstaðar en í bönkunum. Í atvinnurekstri, fasteignum, fyrirtækjum, lóðum og lendum og tap margra þeirra varð síst minna en þeirra sem geymdu sitt fé í bönkunum.
Þannig voru leikreglurnar fyrir hrun. Þannig var samfélagssáttmálinn fyrir hrun. Þannig verður samfélagssáttmálinn aftur eftir eitt ár þegar neyðarlögin falla úr gildi eftir tveggja ára gildistíma.
Það að ríkið skuli hafa breytt þessum leikreglum með setningu neyðarlaganna og tryggt allar bankainnistæður að fullu óháð upphæð og keypt bréf í gjaldþrota fyrirtækjum út úr þessum peningamarkaðssjóðum og þar með látið tap þessar innlánseigenda lenda á skattgreiðendum er einn ljótasti glæpurinn sem framinn var hér á landi í tengslum við þetta hrun.
Það er ekki skattgreiðenda að bera tap þeirra sem áttu og geymdu fé sitt í atvinnurekstri, fasteignum, fyrirtækjum, lóðum og lendum þó hér hefði orðið kerfishrun.
Það er ekki skattgreiðenda að bera tap þeirra sem áttu og geymdu fé sitt í bönkunum eða peningamarkaðssjóðum þó hér hefði orðið kerfishrun.
Hér er verið að slíta sundur samfélagssáttmálann.
Þessum gjörningum á að rifta.
![]() |
63 milljarðar í kaup úr sjóði Landsbanka |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:25 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 5. október 2009
Innistæðueigendur verða líka að afskrifa
Rangar eru þær áherslur að gera innlendum og erlendum innistæðueigendum hærra undir höfði en öðrum þegnum þessa lands. Það að hér voru sett sérstök lög sem tryggðu hag þeirra umfram aðra voru mistök sem fela í sér mikla og óþolandi mismunun.
Engin þjóð er eða hefur verið í okkar sporum þar sem allir bankar landsins, fyrir utan tveir eða þrír smábankar, hafa orðið gjaldþrota á sama tíma. Þar með talinn Seðlabankinn.
Engin þjóð stendur í þeim sporum að þurfa að bæta innlán í gjaldþrota bankakerfi sem var orðið 10 til 12 sinnum stærra en landsframleiðslan. Engin þjóð hefur lent í slíku.
Að taka á sig allar skuldbindingar vegna innlána í slíku bankakerfi langt umfram allar lögboðnar skyldur plús það að tryggja að mestu þá fjármuni sem voru í þessum peningamarkaðssjóðum, það er komið langt út yfir alla skynsemi. Þegar krakkarnir mínir, sem öll eru nú í framhaldsnámi, koma út á vinnumarkaðinn þá munu þau þurfa að bera þessar byrgðar í formi hærri skatta og minni opinberrar þjónustu næstu einn eða tvo áratugina.
Það er siðferðislega rangt að skuldbinda komandi kynslóðir með þessum hætti og tryggja þessar innistæður með neyðarlögum langt út fyrir okkar lagalegu og alþjóðlegu skyldur. Með þessu er í raun verið að ræna unga fólkið okkar og færa ránsfenginn fjármagnseigendum, innlendum og erlendum. Að gera þetta svona er ekkert annað en glæpur gegn skattgreiðendum á Íslandi.
Það er með öllu óviðunandi að það fé sem tapaðist í gjaldþroti bankana skuli ekki allt vera afskrifað. Það er með öllu óviðunandi að menn ætla sér að láta skattgreiðendur bera það tjón sem sumir viðskiptavinir bankana urðu fyrir þegar þegar bankarnir fóru í gjaldþrot. Þetta tjón eiga þessir viðskiptavinir bankana, hvort sem þeir eru lánadrottnar, innistæðueigendur eða eigendur bréfa í peningamarkaðssjóðum að bera. Ekki skattgreiðendur.
Ríkisstjórn og þing á ekkert með að mismuna þegnum landsins með þessum hætti. Fjármagnseigendur eiga ekki að hafa forgang með sérstökum lögum á skattgreiðendur þessa lands. Mín krafa er sú að þessi neyðarlög verði felld úr gildi og samfélagið tryggi innistæður samkvæmt lagaskyldu sem eru 20.887 evrur á hvern reikning og rift verði greiðslum sem fóru í peningamarkaðssjóðina.
Með því að senda íslenskum skattgreiðendum reikninginn vegna þessara innlána, innlána sem bankarnir hafa tapað, þá er verið að framlengja kreppuna hér á landi um mörg ár.
Með því að fella neyðarlögin úr gildi þá leysist þetta Icesave mál af sjálfu sér. Fjölmörg málaferli m.a. málaferli Hollensku innlánseigenda gegn ríkinu munu þá falla niður.
Fellum neyðarlögin úr gildi, afskrifum það sem þarf að afskrifa hjá innlánseigendum eins og aðrir lánadrottnar bankana þurfa að gera og förum í uppbygginguna á næstu árum án þess að skattgreiðendur séu með þessar drápsklyfjar á bakinu.
![]() |
Vilja óháðan dómstól |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:53 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 4. október 2009
Glæpur gegn skattgreiðendum á Íslandi.
Það hvernig staðið var að því að kaupa bréf peningamarkaðssjóðanna út úr þessum þrem gjaldþrota bönkum á margföldu yfirverði er einn stærsti glæpurinn sem var framinn af stjórnvöldum í tenglsum við hrun bankana.
Það að láta skattgreiðendur á Íslandi borga tapið af gambli þess fólks sem valdi að taka meiri áhættu vegna hærri ávöxtunar og geyma fé sitt í þessum peningamarkaðssjóðum er einfaldlega glæpur gegn Íslenskum skattgreiðendum.
Það er ekki og á ekki að vera hlutverk skattgreiðenda að bæta tap þeirra sem glata sínu fé vegna kaupa á hlutabréfum.
Þessum gjörningi á að rifta.
Þessi endurskoðunarfyrirtæki á að sækja til saka.
![]() |
Of hátt mat á virði bréfa í peningamarkaðssjóðum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:39 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 2. október 2009
Bestu fréttir frá því fyrir hrun
Þessar fréttir að til standi að byggja 20 til 30 þúsund fermetra hús fyrir nýtt einkarekið sjúkrahús með tilheyrandi þjónustubyggingum, alls að verðmæti 13 til 20 milljarðar við Köldukvíslargljúfur í Mosfellsbæ er bestu fréttir sem ég hef heyrt frá því fyrir hrun.
Til hamingju með þetta og ósk um að stjórnvöld hjálpi til við að gera þetta að veruleika.
Margar leiðir er hægt að fara í samstarfi einkarekins sjúkrahúss og ríkisrekins heilbrigðiskerfis eins og við erum með. Leiðir sem eru til hagsbóta fyrir báða aðila. Slíkar fyrirmyndir má sækja til hinna Norðurlandanna. Þar fletta menn þessu saman á skynsaman hátt.
Mynd: Á Tungumelum, Esjan í baksýn.
![]() |
Um 300 til 400 ný störf hjá Ístaki |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:59 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 2. október 2009
Góð fjárlög fyrir alla nema byggingariðnaðinn
Eftir að hafa rennt yfir fjárlagafrumvarpið og skoðað þann samdrátt sem boðaður er í útgjöldum einstakra ráðuneyta þá skal ég viðurkenna að ég bjóst við að sjá meiri niðurskurð. Ég átti von á mun meiri niðurskurði en þetta. Það er líka ljóst að síðasta ár, árið 2009 var mikið útgjalda- og þenslu ár.
Það var náttúrulega tóm vitleysa hjá síðustu ríkisstjórn, sem lagði fram fjárlögin fyrir árið 2009, að gera litlar sem engar ráðstafanir í ríkisfjármálunum og reka ríkissjóð vísvitandi með þeim gríðarlega halla sem lagt var upp með og raunin varð á.
Auðvita átti strax að taka í taumana í fyrra haust og draga saman útgjöld ríkisins. Bankarnir féllu endanlega 6. október þannig að menn höfðu allt haustþingið til að aðlaga fjárlögin að raunveruleikanum. Þess í stað var ákveðið að leggja fram enn ein góðærisfjárlögin í upphafi kreppunnar. Það eina sem þetta gerir er að það verður erfiðara að vinna sig út úr kreppunni vegna hærri skulda og meiri vaxtabyrði.
Í þessum fyrstu kreppufjárlögum þá eru það að sjálfsögðu breiðu bök samfélagsins sem eru látin taka mestu og stærstu höggin í þeim samdrætti sem nú stendur fyrir dyrum. Þegar skoðað er hvar á að spara mest þá sjást nánast bara tveggja stafa prósentutölur við einn lið hjá flestum ráðuneytum og það er alltaf sami liðurinn. Þetta er liðurinn "Stofnkostnaður og viðhald".
Hann er í engu sparaður niðurskurðurinn hjá ríkinu þegar kemur að einhverju sem heitir verklegar framkvæmdir.
Á sama tíma og stjórnvöld kynna gríðarlegan niðurskurð í verklegum framkvæmdum þá reyna þau að tefja og stöðva þær fáu framkvæmdir sem þó eru enn í gangi hjá einkaaðilum og reyna að koma í veg fyrir að aðrar stórframkvæmdir fari af stað.
Það er ljóst að þriðja árið í röð mun ekkert blasa við nema áframhaldandi gjaldþrot og atvinnuleysi á Íslenska byggingamarkaðnum.
Mynd: Íslenskt korn tilbúið til þreskingar.
![]() |
Líst illa á fjárlögin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:23 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 1. október 2009
Engin offjárfesting í byggingaiðnaði
Það kemur á óvart að ekki skuli vera um meiri fjárfestingu að ræða sem liggur í ónotuðu íbúðarhúsnæði en sem nemur 73 milljörðum. Ég hélt þetta væru hærri tölur.
2.000 fullbúnar íbúðir sem kosta að meðaltali 36,5 milljón hver, kosta samtals 73 milljarða. Síðustu fimmtán ár hafa verið að seljast 1.500 til 2.500 nýjar íbúðir á ári og Íslendingum hefur fjölgað að jafnaði um 3.000 manns á ári á síðustu 10 árum ef horft er framhjá miklum innflutningi útlendinga á árunum 2005 til 2007.
Lausafjárkreppan er sögð hafa skollið á í heiminum í júlí 2007. Íslensku bankarnir hættu allir haustið 2007 að lána almenningi til íbúðakaupa. Íbúðalánasjóður hefur verið einn á markaðnum síðan. Áður en það gerðist var ekki til ný fullbúin óseld íbúð á markaðnum. Allt sem byggt var, það seldist. Það vantað því ekki kaupendur á markaðinn haustið 2007 þegar bankarnir lokuðu skyndilega fyrir öll sín íbúðarlán vegna fjárskorts.
Fasteignamarkaðurinn hefur nú verið frosinn í tvö ár og menn leyfa sér kvarta yfir því að það skuli liggja fjárfesting í íbúðarhúsnæði sem samsvarar rúmlega eins árs þörf samfélagsins fyrir nýtt íbúðarhúsnæði.
Mér er óskiljanlegt hvernig hægt er að fá það út að það þurfi að fjölga hér á Höfuðborgarsvæðinu um 22% til að þessi fjárfesting sem samsvarar 2.000 fullbúnum íbúðum nýtist.
Ef horft er til þess að hér á landi búa 2,7 einstaklingar í hverri íbúð en 1,8 í hverri íbúð í Kaupmannahöfn og 1,9 í hverri íbúð í Osló þá er ljóst að mikið þarf að byggja ef við ætlum að ná nágrönnum okkar í þessu efni. Ef við byggjum þannig upp hér að það búi af jafnaði 2,0 einstaklingar í hverri íbúð þá þyrftum við að byggja allt það sem er á skipulagskortum sveitarfélaganna frá Selfossi að Akranesi.
Nú eru stærstu árgangar Íslandssögunnar, á sínum tíma, árgangarnir frá 1985 til 1990 að koma inn á fasteignamarkaðinn. það er því ljóst að mikil þörf er fyrir nýjar íbúðir á Höfuðborgarsvæðinu á næstu misserum og árum.
Þessi fjárfesting sem nú liggur í óseldu íbúðarhúsnæði rétt dugar fyrir einn af þessum fimm stóru árgöngum sem hér eru nefndir. Þetta er unga fólkið okkar sem er á milli 20 og 25 ára. Fólk sem engin er að gera neitt fyrir til að það geti stofnað sínar eigin fjölskyldur og eignast sitt eigið húsnæði.
Ég held það væri verðugra verkefni fyrir stjórnmálamenn í dag að finna leiðir til að hjálpa þessu unga fólki til að kaupa sér íbúðir en bölsótast yfir því að "framsæknustu og duglegustu" sveitarfélög landsins ásamt byggingaraðilum hafi verið að sinna sínum samfélagslegu skyldum og hafi verið á fullu að byggja íbúðir handa þessu fólki.
Ótrúlegt er að stjórnmálamenn skuli nú vera að hæla sér að því að Reykjavíkurborg skuli ekki hafa tekið að fullu þátt í því samfélagslega verkefni að byggja yfir unga fólkið okkar.
Fyrst Reykjavíkurborg dró fæturna og hélt sig til hlés við það að byggja yfir unga fólkið þá varð einhver annar að gera það, ekki satt?
Næg er nú bölsýnin þó forystumenn okkar séu ekki að bera svona "bull" á borð fyrir okkur.
Mynd: Á Rangárvöllum
![]() |
100 milljarða ónotuð fjárfesting |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 15:18 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 30. september 2009
Frekar stjórnarslit en nauðasamning um Icesave.
Grunnurinn að nauðasamningnum um Icesave var gerður þegar Bretar héldu eignum Íslenska ríkisins, þar á meðal gull- og gjaldeyrisvarasjóðnum sem geymdur er í Bretlandi og eignum Íslensku bankana í herkví í Bretlandi.
Þennan nauðasamninga átti Ríkisstjórn Íslands aldrei að undirrita. Alþingi bjargaði því sem bjargað varð með því að skilyrða ríkisábyrgðina á samningnum eftir þrotlausa vinnu í allt sumar.
Frekar á ríkisstjórnin að falla en við að gefa meira eftir í þessu máli. Stöndum föst á okkar og hvikum í engu varðandi þá ríkisábyrgð sem þegar er búið að samþykkja. Annað hvort taka Bretar og Hollendingar þessum samningi með óbreyttri ríkisábyrgð eða ríkisstjórnin fellur og þar með Icesave samningurinn.
Falli ríkisstjórnin vegna málsins þá er þjóðin laus undan þessum samningi sem ríkisstjórnin undirritaði. Ríkisstjórn sem fellur vegna samnings sem hún hefur undirritað, slíkur samningur bindur ekki lengur þjóðina.
Í framhaldi þarf að semja á ný frá grunni um Icesave og þá eigum við að setja það sem grundvallar skilyrði fyrir samningum af okkar hálfu að samið verði um sérstaka bótagreiðslu vegna þess tjóns sem bresku hryðjuverkalögin hafa valdið okkur Íslendingum. Það tjón sem þessi hernaðaraðgerð Breta hefur valdið okkur samsvarar því að Bretar hafi lagt stóran hluta Reykjavíkur í rúst með loftárásum.
Komi ekki frá þeim sérstakar skaðabætur vegna þess tjóns sem hryðjuverkalögin ollu okkar þá eiga engar greiðslur að fara frá okkur til þeirra vegna Icesave.
Okkar bankamenn áttu ekkert með að ræna sparifjáreigendur í Bretlandi en ríkisstjórn Bretlands átti heldur ekkert með að beita hryðjuverkalögum á okkur sem þjóð vegna þess.
Nú hlýtur sá tími af fara að renna upp að menn fari að setja hagsmuni okkar Íslendinga í fyrsta sæti í samningum við þetta fólk.
Mynd: Kornakur á Rangárvöllum
![]() |
Fellur ef ekki næst sátt um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 12:47 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 29. september 2009
Fagnaðarefni að farið er að þykkna í forsætisráðherra
Það er gott að það er farið að þykkna í forsætisráðherra vegna framkomu Alþjóða gjaldeyrissjóðsins, AGS. Vonandi verður það til þess að hætt verður við að taka þetta þetta lán upp á USD 4,6 milljarða, um 600 milljarða króna. Lán sem okkur er sagt eigi að liggja ónotað inni í erlendum banka og eigi að virka sem gjaldeyrissvarasjóður.
Óskiljanlegt er að við þurfum nú 600 milljarða króna gjaldeyrisvarasjóð þegar horft er til þess að fyrir árið 2000 var gjaldeyrisvarasjóðurinn um 7 milljarðar. Engin skynsamleg rök eru fyrir því að nú þurfi næstum að 100 falda gjaldeyrisvarasjóðinn frá því sem var í nær hálfa öld. Jú, jú, kannski tvöfalda hann eða þrefalda í allra mesta lagi að tífalda hann en það eru engin rök fyrir því að það þurfi nú að hundrað falda hann.
Með öðrum orðum um leið og við fáum þetta lán frá AGS þá brestur hér á fjármagnsflótti en þar sem við erum með gjaldeyrishöft þá mun krónan ekki lækka og þessir erlendu aðilar munu geta skipt einum dollar út fyrir 125 krónur. Tap erlendra fjármagnseigenda verður því í lámarki þegar þeir skipta krónunum sínum út fyrir dollara og AGS hefur náð öðru aðal markmiði sínu með veru sinni hér. Hitt markmiðið er að sjá til þess að þjóðin borgi síðan þetta lán til baka.
Þannig verður það að þetta lán frá AGS, þessi svokallaði gjaldeyrisvarasjóður, verður tæmdur á einu til tveim misserum.
Þjóðin bætir þessum 600 milljörðum við 700 milljarða skuldin vegna Icesave. Samtals eru þetta um 1.300 miljarðar eða sem samsvarar einni landsframleiðslu.
Hvernig í ósköpunum fá menn það út að þessi skuldsetning, vegna Icesave og lánið frá AGS, sé nauðsynleg fyrir endurreisn og uppbyggingu hér á landi?
Þessar skuldir í erlendum gjaldeyrir þurfum við að borga til baka í þorski, áli og með því að búa um rúm fyrir erlenda ferðamenn.
Að bæta þessum tveimur lánum ofaná önnur lán er miklu líklegra til að hnésetja þjóðina en hjálpa til við endurreisn og uppbyggingu.
Þess vegna fagna ég því að það skuli vera farið að þykkna í forsætisráðherra. Vonandi að hætt verið við að taka þetta lán frá AGS en samið þess í stað um afskriftir innistæðna erlendra fjármagnseigenda hér heima eða þær frystar til næstu 7 ára. Í framhaldi verði endursamið frá grunni um Icesave þar sem það verður sett sem grundvallar skilyrði fyrir samningum af okkar hálfu að samið verði um sérstaka bótagreiðslu vegna tjóns sem bresku hryðjuverkalögin hafa valdið okkur Íslendingum.
Komi ekki skaðabætur frá þeim vegna þess tjóns sem hryðjuverkalögin ollu okkar þá eiga engar greiðslur að fara frá okkur Íslendingum til þeirra vegna Icesave.
Nú hlýtur sá tími af fara að renna upp að menn fari að setja hagsmuni okkar Íslendinga í fyrsta sæti í samningum við þetta fólk.
Mynd: Við Eskivatn .
![]() |
Jóhanna: Þolinmæðin á þrotum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:07 | Slóð | Facebook
Sunnudagur, 27. september 2009
Nú er ég hættur að skilja ríkisstjórnina
Hvernig má það vera að "takist okkur ekki að ljúka Icesave-málinu nú alveg á næstunni mun það tefja og torvelda alla endurreisn, tefja fyrir vaxtalækkun, tefja fyrir afnámi gjaldeyrishafta, tefja fyrir gengishækkun og stofna lánshæfismati ríkisins í stórhættu"?
Icesave hefur ekkert með fiskveiðar okkar Íslendinga að gera.
Icesave hefur ekkert með landbúnað á Íslandi að gera.
Icesave hefur ekkert með ferðaþjónustu okkar Íslendinga að gera.
Icesave hefur ekkert með annan útflutning, iðnaðar- og álframleiðslu eða bara yfir höfuð atvinnulífið í landinu að gera.
Vöruskiptajöfnuðurinn er hagstæður um tugi milljarða í hverjum mánuði og það liggja tæpir tvö þúsund milljarða í bönkum landsins. Þó atvinnuleysistölur í prósentum séu háar þá eru þetta í raun örfáir einstaklingar sem eru atvinnulausir. Í öllu erlendu samhengi eru 15.000 til 20.000 manns örfáir einstaklingar. Lítið þarf til að koma öllu þessu fólki í vinnu.
Allt mun ganga sinn vanagang eins og á síðustu 12 mánuðum þó eitthvað dragist að ganga frá þessum nauðarsamningi um Icesave.
Ef Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, AGS, neitar að lána okkur þessa 4,6 milljarða USD, þ.e. um 600 milljarða króna vegna þess að Icesave er ekki afgreitt þá fagna ég því.
Að taka þetta lán frá AGS sem við ætlum að leggja inn á bankabók erlendis til þess eins að greiða af þessu láni vexti og til að geta sagt að nafninu til að við eigum stóran gjaldeyrisvarasjóð, þetta hef ég aldrei skilið.
Allar líkur eru á því að Seðlabanki Íslands, sem er nánast eins mannaður og hann var í aðdraganda hrunsins, muni sóa þessu fé öllu á nokkrum misserum í einhverju rugli við að verja krónuna.
Við eigum ekki að taka þetta lán frá AGS og við eigum að hætta samstarfi við þá stofnun og taka samningana um Icesave upp frá grunni. Þá eigum við að taka hér einhliða upp evru eða dollar og bjóða hér hagstæðar aðstæður fyrir erlendi fyrirtæki að koma og setja upp starfsemi sína.
Þá rífum við okkur upp úr þessari kreppu á örfáum misserum.
Ég held að forystumenn ríkisstjórnarinnar þurfi aðeins að róa sig og átta sig á því að AGS og Icesave er ekki upphaf og endir alls hér á Íslandi.
![]() |
Ekki séð fyrir enda Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:31 | Slóð | Facebook
Föstudagur, 25. september 2009
Kreppunni að ljúka um allan heim en er rétt að byrja hér
Hlutabréfamarkaðir um allan heim eru þessa dagana að ná sér eftir niðursveiflu síðustu 12 mánaða. Þeir gríðarlegu fjármunir sem "hurfu" úr bókum einstaklinga og fyrirtækja eru að mestu "komnir" til baka með þeim miklu hækkunum sem orðið hafa á þessu ári. Sjá yfirlit hér. Tæknivísitölurnar eru nánast búnar að jafna sig að fullu en iðnaðarvísitölurnar vantar að jafnaði 6% til 12% til að standa í sömu stöðu og fyrir ári.
Þessar miklu hækkanir á virði allra helstu fyrirtækja heims þýðir að hundruð milljóna starfa eru nú trygg næstu árin sem aftur þýðir að almenningu finnur á ný fyrir fjárhagslegu öryggi sem er forsenda þess að almenningur fari að kaupa og fjárfesta á ný sem mun auka enn frekari vöxt og fjölga störfum.
Íslenska OMX hlutabréfavísitalan stendur hins vegar enn í mínus 94%.
Nú þegar ár er liðið frá stærsta bankráni Íslandssögunar eins og það var réttilega kallað þegar ríkið yfirtók Glitni, án þess að farið sé út í þá sálma hver það var sem rændi bankann, eigendurnir eða ríkið, þá eru engin batamerki að sjá á Íslenska hlutabréfamarkaðnum.
Það sem verra er, menn eru í óða önn að búa hér til djúpa heimagerða kreppu í boði Seðlabankans og stjórnvalda með þeim aðgerðum og því aðgerðarleysi sem í gangi er.
Embættis- og stjórnmálamenn sem voru ófærir um að verja þjóðina fyrir þessu gríðarlega kerfishruni sem varð eru nú að grauta í því að finna leiðir til að vinna okkur út úr vandanum.
Þeim er því miður að takast það jafn óhönduglega og viðleitni þeirra var við að verja okkur fyrir kerfishruni fyrir ári.
Mynd: Deildartunguhver.
![]() |
Hækkun í Evrópu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:23 | Slóð | Facebook
Fimmtudagur, 24. september 2009
Gamblað með atvinnulífið, fjármagnseigendur í algjörum forgangi
Mikil er ábyrgð þeirra manna sem setja enn einn vaxtaákvörðunardaginn hagsmuni fjármagnseigenda í fyrsta, annað og þriðja sæti í vaxtaákvörðunum sínum.
Samfélagið má allt falla, bara ef hagsmunir fjármagnseigenda eru tryggðir eru enn og aftur skilaboðin frá Seðlabankanum.
Þegar svona vel er gefið á garðann á Svörtuloftum þá fæst féð ekki út en hímir þess í stað inni í fjárhúsunum landsins og hreifir sig ekki.
Nú þyrfti seðlabankastjóri, eins og góður fjárbóndi, að minnka gjöfina á húsi og fá eitthvað af fénu út. Um leið og gjöfin minnkar þá verður féð svangt og þá byrjar sumt af því að leita sér að grasi utan fjárhúsanna.
Um leið og eitthvað af þessum stóra fjárstofni fer að hreifa sig úr húsi þá leysast úr læðingi kraftar atvinnulífsins.
Það hafa aldrei þótt góð búhyggindi að halda öllu fé inni, hnípnu og hræddu á gjöf allt árið.
En þegar svona rausnarlega er gefið á garðann þá er skiljanlegt að allt féð skuli halda sig innandyra og við gröfum okkur niður í heimatilbúna kreppu í boði hrædda fjárbóndans á Svörtuloftum á sama tíma og allt er á uppleið í löndunum í kring.
![]() |
Már: Þess vænst að verðbólga hjaðni ört |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:11 | Slóð | Facebook
Miðvikudagur, 23. september 2009
Botnlaust fyllerí á utanríkisþjónustunni
Ljóst er að í Utanríkisráðuneytinu hafa menn verið í orðsins fyllstu merkingu á útgjaldafylleríi, slík hefur útgjaldaaukningin verið. Nú er tækifæri til að stoppa þessa sóun fjármuna sem þar hefur verið í gangi og loka sendiráðum og sendiráðsskrifstofum og segja upp starfsfólki.

Nú á að nota tækifærið og fækka sendiráðum úr sautján í sex. Við eigum að halda nokkrum lykil sendiráðum og loka öllum hinum. Ég hefði vilja halda sex sendiráðum, í Kaupmanahöfn, Osló, Stokkhólmi, Brussel, Peking og Kanada. Fastanefndunum eigum við að halda, í Genf, Strassborg, hjá Nato og í New York og loka síðan öllum ræðismannsskrifstofum.
Fjárframlög til Utanríkisráðuneytisins síðustu ár eru þessi:
- 2007 - 7,5 milljarðar
- 2008 - 8,9 milljarðar
- 2009 - 11,4 milljarðar
Með því að skera utanríkisþjónustuna niður í það sem hún var um 1960 þá færu 2 til 3 milljarðar í þessi útgjöld. Við það sparast á ári um 8 til 9 milljarðar.
Með sölu eigna þar sem þessi 11 sendiráð eru sem yrði lokað þá fást sjálfsagt 9 til 12 milljarðar.
Samanlagt eru þetta hátt í 20 milljarðar sem svarar til um 20% af útgjöldum til heilbrigðismála.
Nú stendur til enn frekari niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni upp á um 7 milljarða.
Ef þessi ofvaxna utanríkisþjónusta yrði skorin niður til samræmis við stærð og umsvif þjóðarinnar og við hættum þessu mikilmennskubrjálæði sem einkennt hefur þetta ráðuneyti og þennan málaflokk þá þarf ekki að koma til neinn niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni.
![]() |
Sendiráð upp á 1,5 milljarða |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 11:20 | Slóð | Facebook
Þriðjudagur, 22. september 2009
Atvinnulausir smiðir byggi fangelsi
Af hverju fækka menn ekki lítillega á atvinnuleysisskrá og taka eitthvað af þeim smiðum og byggingaverkamönnum sem þar eru á bótum og láta þá byggja fangelsi?
Er ekki hægt að nota sömu leið og verið er að ræða varðandi nýja spítalann?
Stofnað verði fasteignafélag sem byggir og á þetta nýja fangelsi. Þetta fasteignafélag fær lán hjá eða verður í eigu fjárfesta eins og lífeyrissjóðanna. Fangelsismálastofnun leigir síðan fangelsið af þessu fasteignafélagi. Ríkið kaupir síðan fangelsið af fasteignafélaginu þegar betur árar.
Þetta er "winn winn" staða fyrir alla.
Lífeyrissjóðirnir eru með fasteignaveð fyrir sínum lánum og eru með öruggan leigjanda, samfélagið fær mannvirki sem þörf er fyrir, það fækkar á atvinnuleysiskrá, greiðslur atvinnuleysisbóta lækka og smiðirnir sem fá vinnu við verkið og fjölskyldur þeirra eru leystar úr áþján.
![]() |
Allsherjarnefnd ræðir fangelsismál |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:59 | Slóð | Facebook
Mánudagur, 21. september 2009
Gerð jarðganga ekki mannaflsfrek framkvæmd
Nú þegar leitað er heppilegra verkefna fyrir lífeyrissjóði landsmanna að taka þátt í með sitt fjármagn þá er jarðgangagerð þær framkvæmdir sem síst á að horfa til.
Ástæðan er að gerð jarðganga eru ekki mannaflsfrekar framkvæmdir. Fáar ef nokkrar verklegar framkvæmdir skapa jafn fá störf fyrir hverjar 100 milljónir sem í þær eru lagðar. Ætli meira en 10% til 15% af kostnaði við jarðgangagerð fari í mannalaun. Um 85% til 90% af því fjármagni sem fer í jarðgangagerð fer í raun úr landi. Með því á ég við kaup á olíu, sprengiefni, kaup á borkrónum og borstálum ásamt auðvita gríðarlegum fjármunum sem fara í að borga af og viðhalda þeim dýru innfluttu tækum sem notuð eru við nútíma jarðgangagerð.
Jarðgangagerð í dag væri í raun ekkert annað en gríðarleg eyðsla á dýrmætum gjaldeyri sem skapaði örfáum mönnum störf.
Nei, förum frekar í með fé lífeyrissjóðanna í verklegar framkvæmdir sem skapa mörg störf fyrir hverjar 100 milljónir sem í þær eru lagðar. Af nægu er þar að taka. Að jafnaði fara um 40% til 50% af kostnaði við byggingu húsa í mannalaun. Enn meira ef um viðhaldsverkefni er að ræða.
Veljum frekar einhver slík verkefni, verkefni sem skapa mörg störf, mannaflsfrek verkefni eins og það er kallað.
![]() |
Engin svör við hugmyndum um tvöföldun |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 09:19 | Slóð | Facebook