Botnlaust fyllerí á utanríkisþjónustunni

Ljóst er að í Utanríkisráðuneytinu hafa menn verið í orðsins fyllstu merkingu á útgjaldafylleríi, slík hefur útgjaldaaukningin verið. Nú er tækifæri til að stoppa þessa sóun fjármuna sem þar hefur verið í gangi og loka sendiráðum og sendiráðsskrifstofum og segja upp starfsfólki.

166Utanríkisþjónusta íslands er eins og bankakerfið okkar var og er reyndar enn, allt, allt of stórt fyrir umfang og stærð þjóðarinnar.

Nú á að nota tækifærið og fækka sendiráðum úr sautján í sex. Við eigum að halda nokkrum lykil sendiráðum og loka öllum hinum. Ég hefði vilja halda sex sendiráðum, í Kaupmanahöfn, Osló, Stokkhólmi, Brussel, Peking og Kanada. Fastanefndunum eigum við að halda, í Genf, Strassborg, hjá Nato og í New York og loka síðan öllum ræðismannsskrifstofum.

Fjárframlög til Utanríkisráðuneytisins síðustu ár eru þessi:

  • 2007 - 7,5 milljarðar
  • 2008 - 8,9 milljarðar
  • 2009 - 11,4 milljarðar

Með því að skera utanríkisþjónustuna niður í það sem hún var um 1960 þá færu 2 til 3 milljarðar í þessi útgjöld. Við það sparast á ári um 8 til 9 milljarðar.

Með sölu eigna þar sem þessi 11 sendiráð eru sem yrði lokað þá fást sjálfsagt 9 til 12 milljarðar.

Samanlagt eru þetta hátt í 20 milljarðar sem svarar til um 20% af útgjöldum til heilbrigðismála.

Nú stendur til enn frekari niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni upp á um 7 milljarða.

Ef þessi ofvaxna utanríkisþjónusta yrði skorin niður til samræmis við stærð og umsvif þjóðarinnar og við hættum þessu mikilmennskubrjálæði sem einkennt hefur þetta ráðuneyti og þennan málaflokk þá þarf ekki að koma til neinn niðurskurður í heilbrigðisþjónustunni.

 


mbl.is Sendiráð upp á 1,5 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nokkuð merkilegt og fín samantekt.  Silkihúfusöfnunin innan utanríkisþjónustunnar hefur verið yfirgengleg en þrátt fyrir það hefur þjónusta og hæfni farið hraðversnandi. Er mögulegt að þeir sem þarna eru ráðnir telji að þeir eigi eingöngu að vera í snopphænsna boðsferðum og kokkteilboðum. Dýr myndi Hafliði allur.

Því er einnig stungið undir stól að leggja niður Útlendingastofnun sem er byggð á hugmyndum sem uppi voru á dögum kaldastríðsins og eru löngu úreltar alls staðar nema á Íslandi.  Þarna er stórum fjármunum kastað á glæ.

Þórhallur V Einarsson (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 10:10

2 identicon

. . . afsakið "snobbhænsna"  :)

Þórhallur V Einarsson (IP-tala skráð) 23.9.2009 kl. 10:11

3 Smámynd: Heimir Hannesson

Ég held að þú hafir ekki minnstu hugmynd um hvað þú ert að röfla greyið mitt ...

Heimir Hannesson, 23.9.2009 kl. 10:24

4 Smámynd: Magnús Helgi Björgvinsson

Held að þú sért nú að ofmeta verðmæti sendiráða. Japanska sendiráðið var langdýrasta sendiráð sem við höfum keypt. Það kostaði um 800 milljónir á sínum tíma því að húsnæði í Tokyo var svo dýrt.

Eins bendi ég þér á að við getum ekki lokað mörgum sendiráðum því það eru gagnkvæm samskipti milli okkar og annarra þjóða sem byggjast á því sem og hagsmunir Íslendinga sem búa þar, ferðast, eiga viðskipti við og fleira. Og miðað við fólksfjölgun hér síðan 1960 hefur utanríkisráðuneytið hlutfallslega minnkað miðað við útgjöld ríkisins.

Magnús Helgi Björgvinsson, 23.9.2009 kl. 11:00

5 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Magnús

Það getur verið að þessi tala sé í hærri kantinum en stærðargráðan liggur samt milli  5 og 10 milljarða. Um er að ræða 11 sendiráð og sendiráðsbústaði plús allt húsnæðið sem við eigum þar sem eru sendiráðsskrifstofur.

Hvað varðar samskipti við aðrar þjóðir sem fara í gegn um þessi sendiráð þá geta þau farið fram með ýmsum hætti í dag og í öllu falli er óeðlilegt að 300.000 manna þjóð sé að reka utanríkisþjónustu eins og ef væri margra milljón manna samfélag. Værum við Íslendingar fjórar til fimm milljónir þá væri ég ekki að skrifa þessa grein, en við erum skuldum vafinn smáþjóð sem verður að leyta allra leiða til að halda grunnstoðum samfélagsins gangandi. Að reka 18 sendiráð og fullt af sendiráðsskrifstofum út um allan heim, það flokkast ekki einna af grunnstoðum samfélagsins.

Hvað varðar verslun og viðskipti íslendinga við aðrar þjóðir þá er það svo að þessi sendiráð koma hvergi nærri þeim viðskiptum sem í gangi eru. Það mun ekkert breytast varðandi verslun og viðskipti við Finnland þó þar sé ekkert sendiráð.

Þeir einstaklingar sem hafa þurft að leita til þessara sendiráða, margir bera þá sögu að þar sé enga þjónustu hægt að fá. Þannig var það fyrir aldarfjórðungi og þannig er það enn í dag.

Til hvers erum við að halda þessu gríðarlega batteríi úti á sama tíma og við erum að skera niður þjónustu á spítölum landsins?

Eftir aldarfjórðung þegar við verðum ef til vill aftur orðin ein af ríkustu þjóðum heims þá getum við kannski farið að sportast með sendiráð og sendiráðsskrifstofur um allar koppagrundir. Þessir næstu mánuðir og næstu ár er ekki sá tími.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.9.2009 kl. 11:49

6 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Heimir

Það er alltaf jafn uppbyggilegt að fá menn hingað inn á bloggið sem tjá sig um umræðuefnið með þeim hætti sem þú gerir.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 23.9.2009 kl. 11:53

7 Smámynd: Ómar Bjarki Smárason

Er þetta ekki nokkurn vegin sú upphæð sem verið er að skera niður á Landspítalanum....? Um 7,5 milljarðar sem hægt væri að spara. En ég held að það þurfi nú að halda úti sendiráði í London. Hún er höfuðborg heimsins....

Ómar Bjarki Smárason, 23.9.2009 kl. 20:34

8 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Hvað áttu við, þegar þú segir að „loka öllum ræðismannsskrifstofum"?

Eiður Svanberg Guðnason, 23.9.2009 kl. 22:19

9 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Inn í  tilvitnunina vantaði orðið  síðan , - „loka síðan öllum ræðismannsskrifstofum".

Eiður Svanberg Guðnason, 23.9.2009 kl. 22:21

10 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

 Svo  væri, Friðrik, fróðlegt, ef þú nefndir dæmi  til sönnunar því sem þú hér  fullyrðir: Þeir einstaklingar sem hafa þurft að leita til þessara sendiráða, margir bera þá sögu að þar sé enga þjónustu hægt að fá. Þannig var það fyrir aldarfjórðungi og þannig er það enn í dag.

Þessi   fullyrðing þín  er ómerkur sleggjudómur nema þú  nefnir  dæmi máli þínu til stuðnings.

Eiður Svanberg Guðnason, 23.9.2009 kl. 23:29

11 Smámynd: Emil Örn Kristjánsson

Ég vísa í mína eigin veffærslu um sama efni hvar segir:

"Það væri nær að semja við einhverja hinna Norðurlandaþjóðanna um að aðstöðu, gegn sanngjarnri greiðslu, fyrir einn starfsmann inni á sendiráðum þeirra og fá þá einnig að festa skjöldinn með skjaldarmerki íslenzka ríkisins utan á húsið við hlið hins. Þetta myndi spara milljarða.

Það væri ekki nema á örfáum stöðum sem Íslendingar þyrftu að halda úti eigin sendiráði.

Síðan mætti leigja aðstöðu til að standa fyrir opinberum móttökum o.þ.h. þegar svo ber undir."

Reyndar held ég, Friðrik, að sex sendiráð sé alltof mikið. Það þarf ekkert sendiráð í Kanada og aðeins eitt á Norðurlöndum.

Emil Örn Kristjánsson, 24.9.2009 kl. 00:03

12 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sammála þér Emil.

Ég var að hugsa um tengslin við þessa á annað hundrað þúsund "Íslendinga" sem búa í Kanada, þ.e. afkomendur þeirra Íslendinga sem þangað fluttu. Það væri svona "symbol" af vera með eitt sendiráð fyrir S og N Ameríku og hafa það þar.

Til að hafa pistilinn ekki of langan þá fór ég ekki að útlista ástæður þess af hverju ég vil halda sendiráðunum í Osló, Stokkhólmi og Kbh. en það er einmitt til að hægt sé að semja við þessar þjóðir á þeim nótum sem þú ert að nefna.

Sæll Eiður

Ég flutti til Kbh 1982 og bjó þar í 2 ár. Verið sjálfstætt starfandi ráðgjafi frá 1991.  Um helmingurinn af minni starfsævi hefur farið í að sinna byggingarverkefnum erlendis fyrir íslenska og erlenda verkkaupa.

Ég nenni ekki einu sinni að telja upp öll dæmin sem ég þekki um fólk og fyrirtæki sem hafa leitað eftir aðstoð hjá sendiráðunum og ekki fengið. Í mínum geira samfélagsins þá er hlegið þegar einhver nefnir það hvort eigi að leita aðstoðar hjá sendiráðunum þegar einhver mál koma upp. Það er bara tímaeyðsla.

Emil sem kemur með sitt komment hér og vill ganga enn lengra en ég, hann er einn af "styrkustu stoðum" íslenskrar ferðaþjónustu og hefur verið að taka á móti útlendingum hér heima og senda íslendinga til útlanda síðasta aldarfjórðunginn. 

  • Hans rödd úr íslensku ferðaþjónustunni.
  • Mín rödd er úr íslenska byggingariðnaðnum
  • Mín rödd er úr hópi íslenskra námsmanna erlendis.
  • Mín rödd er úr hópi aðstandenda sjúklinga sem hafa þurft að leita sér læknisaðstoðar erlendis.

Ég bendi þér líka á Eiður að sú þjóð sem almenningur á Íslandi hefur mest samskipti við, í því landi höfum við ekkert sendiráð og þeir ekkert hér. Á annan tug þúsunda Pólverja búa hér og starfa. Engin er sú þjóð sem almenningur og fyrirtækin á Íslandi eiga í meiri samskiptum við.

Þessi miklu samskipti komust á þrátt fyrir að Ísland er ekki með sendiráð í Varsjá.

Þar er bara hægt að draga af þessu eina ályktun, í dag skipta sendiráðin engu máli í verslun og viðskiptum eða samskiptum milli almennings í þessum löndum.

Þá vaknar líka sú spurning af hverju Pólverjar, eina þjóðin í heiminum fyrir utan Færeyinga, skuli hafa ákveðið að lána okkur Íslendingum fé í okkar vandræðum?

Skyldi það hafa hjálpað að það er ekkert Íslenskt sendiráð í Varsjá?

Í þeim löndum þar sem við höfum sendiráð, þar neita þær þjóðir að aðstoða okkur nema við göngum að afarskilmálum Breta og Hollendinga í Icesave.

Í þessu Icesave máli þá virðist það hjálpa að vera ekki með sendiráð.

Ég veit það Eiður að þeim sem starfa í utanríkisþjónustunni mun finnast að sér vegið með svona skrifum en þetta er mín sýn, mín reynsla og mínar tillögur til úrbóta

Friðrik Hansen Guðmundsson, 24.9.2009 kl. 01:23

13 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Sæll Friðrik,

Eftir  stendur að þú nefnir ekki einasta  dæmi  um að   íslenskt sendiráð hafi neitað Íslendingum um aðstoð  eða  fyrirgreiðslu.

Þú svarar  ekki spurningu minni um hvað þú eigir  við þegar þú  talar um að loka öllum  ræðismannsskrifstofum.

Í þriðja lagi  kýstu  að horfa   framhjá því að Pólverjar  eru með  öfluga  sendiskrifstofu hér (Skúlatúni 2)  með útsendum diplómatiskum starfsmönnum frá Póllandi, þótt   hún heiti ekki sendiráð, -   ekki ennþá. Man  ekki  betur en þeir hafi lýst yfir að þeir stefni á opnun  sendiráðs á Íslandi. Þessi skrifstofu annast margháttaða þjónustu  við þá Pólverja sem  hér búa. Hún er  sendiráð  í öllu tilliti  nema   hvað  heitið  varðar.

En   nefndu  endilega   dæmi, alvöru dæmi um að íslensk sendiráð hafi neitað  að  hjálpa Íslendingum og  svaraðu spurningunni um ræðismannsskrifstofurnar.

 Annars  falla öll þín ummæli  dauð og ómerk.

Eiður Svanberg Guðnason, 24.9.2009 kl. 10:13

14 identicon

Tek undir hugmyndir um fækkun sendiráða okkar. Á móti má fjölga starfsfólki á hverjum stað og nýta til hlýtar nútíma samskiptatækni. Tillaga að  skiptingu starfssvæða miðað við 6 sendiráð: Norðurlönd, Norðurameríka, Suðuramerika, Japan, Kína og meginland Evrópu.

Haukur Brynjólfsson

Haukur Brynjólfsson (IP-tala skráð) 24.9.2009 kl. 10:19

15 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Eiður

Samkvæmt Fjárlagafrumvarpinu fyrir 2009, sjá hér, þá eru þar talin upp 17 sendiráð sem fá bein fjárframlög frá fjárveitingarvaldinu.

Framkvæmdavaldið, þ.e. utanríkisráðuneytið, upplýsir á heimasíðu sinni að það starfræki 31 "sendiskrifstofu" í 23 löndum, sjá hér.

Í þessum skrifum mínum hér á þessu bloggi er ég löngu hættur að eltast við öll þessi nýju nöfn á fyrirtækjum og stofnunum sem engin veit hvað standa fyrir. Oft hafa þessi nýju nöfn verið búin til í þeim tilgangi að flækja mál og villa um fyrir almenningi. HS orka eða hvaða nafn Hitaveita suðurnesja ber í dag, hér á þessu bloggi leyfi ég mér að kalla þetta fyrirtæki Hitaveitu suðurnesja óháð hvaða nafn það ber á hverjum tíma. Gamla nafnið þekkja allir sem pistilinn lesa vita hvaða fyrirtæki ég er að fjalla um.

Engin veit hvað nýyrðið "sendiskrifstofa"stendur fyrir. Í þessum pistli mínum kalla ég þær ræðismannsskrifstofur, allir vita hvað það þýðir..

Ef þú berð saman gögnin sem ég vísa til hér að ofan, Fjárlagafrumvarpið og skoðar hvaða 17 "sendiráð" eru á fjárlögum og síðan listann yfir "sendiskrifstofur" hjá utanríkisráðuneytinu, alls 31 - 17 = 14, það eru "ræðismannsskrifstofurnar" sem ég er að vísa til.

Hvað varðar eftirfarandi ummæli mín hér að ofan:

Þeir einstaklingar sem hafa þurft að leita til þessara sendiráða, margir bera þá sögu að þar sé enga þjónustu hægt að fá. Þannig var það fyrir aldarfjórðungi og þannig er það enn í dag.

Þau erindi sem menn leita með til sendiráða eru flest af þeim toga að um þau mál ætla ég ekki fjalla um á þeim opna vettvangi sem þetta blogg hér er. Ég ætla ekki að fara að nafngreina hér ákveðna einstaklinga né lýsa þeim ástæðum þess að þeir leituðu til sendiráðsins.

Ég get hinsvegar upplýst hvaða svör, margir, ekki allir, fá þegar leitað er aðstoðar sendiráðanna, þau eru gjarnan þessi:

  • Þetta er ekki á verksviði utanríkisþjónustunnar.
  • Við sinnum ekki málum af þessum toga.
  • Þú verður að leita eitthvert annað með þetta mál.
  • Svona mál einstaklinga sinnum við ekki.

Teljir þú ummæli mín falla dauð og ómerk þó svo að ég vilji ekki ræða á opinberum vettvangi einstök mál þeirra einstaklinga sem ég veit til að hafa leytað til sendiráða Íslands gegnum árin og ekki fengið hjálp, þá verður bara svo að vera.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 24.9.2009 kl. 13:57

16 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

  Það er tilgangslaust  að  ræða  við menn, sem  þekkja  ekki umræðuefnið,- vita ákaflega lítið  um hvað þeir eru að tala. Tala  samt og  spara ekki stóryrðin.   Bera  starfsfólki  utanríkisráðuneytisins  sakir á  brýn og þora svo ekki að standa  við  stóru orðin.

Ef þú skoðar heimasíðu utanríkisráðuneytisins þá  sérðu hvað  sendiskrifstofa  er, en  þú bara  bullar um  ræðismannsskrifstofur !  Umræða á þessu plani er algjörlega tilgangslaus.

Sendiráð, fastanefndir og ræðisskrifstofur með útsendum starfsmönnum nefnast einu nafni sendiskrifstofur. Ísland starfrækir 31 sendiskrifstofu í 23 löndum. Sendiherrar 100 ríkja hafa afhent trúnaðarbréf á Íslandi.

Eiður Svanberg Guðnason, 24.9.2009 kl. 15:56

17 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Jæja, nú kom gamla tuggan um vanþekkingu og kunnáttuleysi.

Þú bendir mér á að skoða heimasíðu utanríkisráðuneytisins.

Ég bendi þér á að lesa það sem ég skrifaði hér rétt fyrir ofan og fara inn á "tenglana" sem þar eru. Þú gerir það með því að klikka með músinni þar sem orðið "hér" er sérstaklega tilgreint, stafirnir í því orði eru öðru vísi á litinn.

Ég er sammála þér að þessi tjáskipti eru út í hött þegar þú lest ekki einu sinni það sem ég skrifa.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 25.9.2009 kl. 00:19

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband