Eiríkur Guðnason seðlabankastjóri, segðu af þér og hættu strax.

456185A

Dapurlegt er að lesa þetta pólitíska útspil Eiríks Guðnasonar seðlabankastjóra. Vorið 2006 féll Íslenska krónan um 25% í kjölfar gagnrýni ýmissa erlendra aðila, m.a. Danske Bank. Þar voru á ferð aðilar sem af velvild og vinsemd voru að vara stjórnvöld og almenning á Íslandi við þeirri helreið sem Íslensku bankarnir voru þá á. Í framhaldi lokuðu margar stærstu lánastofnanir heims  dyrum sínum á Íslensku bankana. 

Þegar Íslensku bankarnir gátu ekki fengið meiri lán í erlendum bönkum til að halda áfram að stækka þá hófu þeir, í boði og með blessun Seðlabanka Íslands og ríkisstjórnarinnar, að safna sparifé almennings í Evrópu inn á innlánsreikninga sína og buðu bestu innlánskjör sem þekkst hafa í Evrópu frá lokum seinni heimstyrjaldarinnar. Íslensk þjóð mun súpa seiðið af því bulli um ókomin ár. Í stað þess að taka í taumana og spyrna við fótum sló Seðlabankinn  undir nára.

Í mars 2008 afnam Seðlabankinn bindiskyldu bankana í erlendum útibúum þeirra. Á helreið Íslenska bankakerfisins á þessum krítíska tímapunkti þá slær Seðlabankinn enn á ný undir nára í stað þess að taka í taumana og spyrna við fótum.

Menn miða upphaf þessarar miklu kreppu við júlí eða ágúst 2007. Í september það ár var farið að gæta lausafjárþurrðar hjá Íslensku bönkunum. Í október 2007 voru allir Íslensku bankarnir hættir að geta lánað almenningi hér á landi til kaupa á íbúðarhúsnæði. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar það gerðist?

Fyrir ári síðan, í febrúar 2008, var staðan orðin þannig að fjármögnunarfyrirtæki bankana gátu ekki lengur boðið einstaklingum upp á bílalán. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar það gerðist?

Frá vorinu 2006 hefur fjöldi aðila varað við hruni bankana. Flestir þeirra höfðu hér engra hagsmuna að gæta og voru í vinsemd og virðingu að vara stjórnvöld og almenning við fyrirsjáanlegu bankahruni. Stjórnvöld, bankarnir og Seðlabankinn vísuðu öllum slíkum aðvörunum á bug með skætingi. Ráðamenn létu þá hafa eftir sér ótrúleg ummæli. Þessum aðilum bent á að fara í endurmenntun, þeir kallaðir öfundarmenn og þar fram eftir götunum. Hringdi engum viðvörunarbjöllum í Seðlabankanum þegar allar þessar aðvaranir allra þessara góðu manna streymdu á þriðja ár inn í Seðlabankann?

Stærsta spurningin í mínum huga er þó af hverju bönkunum var ekki sett svipað lagaumhverfi og er t.d. á hinum Norðurlöndunum. Í lögum flestra annarra landa er  að finna eftirfarandi lagaákvæði.

  • Bönkum er bannað að eiga í fyrirtækjum á samkeppnismarkaði.
  • Einstaklingar og fyrirtæki sem eiga meira en 1% til 2% í banka er bannað að eiga í öðrum fyrirtækum á samkeppnismarkaði.
  • Bankar sem eru fyrirtæki með ríkisábyrgð í formi þess að Seðlabankinn er lánveitandi þeirra til þrautavara er bannað að hagnast meira en sem nemur 15% af eigið fé á ári. Ef hagnaður er meiri á að minnka vaxtamun eða þjónustugjöld. Þannig er komið í veg fyrir að bankar féfletti almenning og fyrirtæki.
  • Starfsmönnum banka sem gegna stjórnunarstöðum er bannað að eiga hlutabréf í fyrirtækum á samkeppnismarkaði.

Ég spyr, af hverju gerði Seðlabankinn og stjórnvöld ekkert í því að setja á bankana lög og reglur svipuðum þeim sem gilda í öðrum löndum?  Þessi afglöp eru að kosta Íslenska þjóð slíka fjármuni að það þarf fleiri en eina kynslóð Íslendinga til að greiða þær skuldir. 

Á síðustu árum hefur Íslenska þjóðin verið veðsettsett fyrir eftirfarandi:

  • Banki í einkaeign safnar á tveim árum yfir 1.000 milljörðum í útlöndum inn á innlánsreikninga sem Seðlabanki Íslands ábyrgist og þjóðin er ábekkingur. Hundruð milljarða munu falla á þjóðina vegna þessa.
  • Útgefendur Jöklabréfa koma með hundruð milljarða inn í landið og setja í ríkisskuldabréf og innlán þar sem ríkið er í ábyrgð og þjóðin er ábekkingur. Bankarnir töpuðu þessi öllu og nú á ábekkingurinn, þjóðin, að endurgreiða útlendingum allt þetta fé.
  • Fiskveiðiauðlindina er búið að skuldsetja fyrir 500 - 900 milljarða. Árlegar vaxtagreiðslur eru 70 milljarðar. Aflaverðmæti upp úr sjó 2007 voru 136 milljarðar. Þessi auðlind er sameign þjóðarinnar og þjóðin er því í raun ábekkingur á þessum skuldum. Ef útgerðin og bankarnir fara í þrot en erlendir lánadrottnar eru með veð í veiðiheymildunum, þá verður þjóðin að yfirtaka og borga þær skuldir vilji hún nýta auðlindina.

Í september síðastliðnum kom forsætisráðherra þáverandi og fullyrti að ríkissjóður væri skuldlaus. Af hverju var aldrei minnst á allar þessar ábyrgðir sem hvíldu á þjóðinni? Af hverju var þjóðinni ekki sagt frá þeim fyrr en nú þegar við eigum allt í einu að borga?

Axlaðu þína ábyrgð á gjalþroti Íslenska bankakerfisins Eiríkur Guðnason  seðlabankastjóri og segðu af þér og hættu strax.

Engir embættismenn hafa á lýðveldistímanum brugðist Íslenskri þjóð jafn illa og stjórnendur Seðlabankans nema ef vera skildi stjórnendur Fjármálaeftirlitsins.

 


mbl.is Furðar sig á vinnubrögðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Stór flott grein hjá þér. Það er engu við þetta að bæta, ja jú nema það að meðvirkni ráðamanna síðustu Ríkisstjórnar hefur verið með hreinum ólíkindum.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 11:17

2 identicon

Eiríkur guðnason kýs að kveðja Seðlabankann með hroka, skít og skömm. Það er hans einka ákvörðun.

Stefán (IP-tala skráð) 25.2.2009 kl. 12:04

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband