Er forsetinn að búa sig undir að skipa hér utanþingsstjórn?

Maður gengur nú undir manns hönd við að reyna að gera eins lítið og hægt er úr þeirri staðreind að samkvæmt stjórnarskrá er forsetaembættinu falið að fara með framkvæmdavaldið og skv. 21. grein stjórnarskrárinnar er forseta, ekki Alþingi, falið umboð þjóðarinnar að gera samninga við erlend ríki. Ljóst er að mörgum stjórnmálamönnum er mikill þyrnir í augum það mikla vald sem stjórnarskráin felur eina embættismanni ríkisins sem þjóðin fær að kjósa í beinni kosningu á fjögurra ára fresti.

18122009235Alþingsmenn þykjast þess jafnvel umkomnir að geta skipað handhafa framkvæmdavaldsins fyrir verkum og krefjast þess að forseti skrifi tafarlaust undir Icesve lögin.

Háskólakennarar sem eru yfirlýstir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar þykjast sjá þess staf í stjórnarskrá að staðfesti forseti ekki lög innan tveggja til þriggja daga frá því forseti fær þau í hendur þá sé forseti að brjóta stjórnarskrána. Hvergi finnst þó stafkrókur um slíkan tímaramma í stjórnarskránni.

Ótrúlegt er að heyra menn tala með þessum hætti. Það er eins og þessir menn hafi ekki lesið stjórnarskrána og átti sig ekki á því að samkvæmt stjórnarskrá er forseti handhafi framkvæmdavaldsins. Forseti lætur ráðherra framkvæma vald sitt. Ráðherrar þiggja vald sitt frá forsetaembættinu. Ráðherrar þiggja vald sitt ekki frá Alþingi.

Alþingi fer með löggjafarvaldið. Samkvæmt stjórnarskrá eru þingmenn ekki kosnir á þing til að fara með framkvæmdarvaldið. Í Alþingsikosningum er samkvæmt stjórnarskrá ekki verið að veita þingmönnum umboð til að fara með framkvæmdavaldið. Þingmenn fara með löggjafarvaldið. 

Samkvæmt stjórnarskrá er þjóðin í forsetakosningum að veita forseta umboð til að fara með framkvæmdavaldið. Hvort það eru svo þingmenn eða utanþingsmenn sem fara með vald forseta sem ráðherrar, það er á hendi forseta að ákveða / samþykkja.

Einhverjar hefðir, venjur og almennur skilningur sem varð milli einstakra forseta og ákveðinna forystumanna í stjórnmálum hér á árum áður sem mótaðast kannski mest af því að embættin voru þá með skrifstofur í sama húsi getur aldrei orðið stjórnarskránni yfirsterkari. Við getum ekki stýrt og stjórnað þessu samfélagi á grunni þeirra hefða og venja sem mynduðust á sínum tíma í samstarfi þeirra Vigdísar Finnbogadóttur forseta og Steingríms Hermannssonar forsætisráðherra. Við höfum stjórnarskrána til að segja okkur til um það hvernig þessi samskipti eiga að vera.

Stjórnarþingmenn standa fyrir endalausum hótunum og hóta sem aldrei fyrr forseta og almenningi. Þeir hóta því að verði Icesave lögin ekki tafarlaust staðfest þá munu himin og jörð farast. Of langt mál er að fara að telja upp allar þær hótanir sem stjórnarliðar ásamt Bretum og Hollendingum hafa haft uppi verði Ivesave málið ekki tafarlaust afgreitt. Eitt er þessum hótunum öllum sammerkt, allar eiga þær sér litla stoð í raunveruleikanum. Ekkert hrun varð á mörkuðum nú í morgun eins og varaformaður fjárlaganefndar Alþingis var búinn að "lofa" að mundi verða skrifaði forseti ekki undir lögin fyrir opnun markaða í dag. Þetta með hrunið í morgun var jafn innistæðulaus hótun eins og aðrar hótanir sem stjórnarliðar hafa haft uppi í þessu máli.

Það gleður mig að forsetinn skuli ekki hafa látið undan þessum hótunum.

Það gleður mig að forseti lætur slíkan málflutning ekki hafa áhrif á sig frekar en hann hefur haft áhrif á þessi 25% atkvæðisbærra manna og kvenna sem hafa ekki farið á taugum þrátt fyrir fordæmalausar hótanir Breta og Hollendinga  og stendur enn óbugaður í þessum efnahagsstormi sem hér hefur geisað. Þessi 25% atkvæðisbærra manna og kvenna sem hafa skorða á forseta að synja nýjustu útgáfu á Icesave lögunum staðfestingar.

Vonandi bara að forsetinn taka sér góðan tíma fram eftir vikunni til að skoða þetta mál. Hann þarf að láta skoða og flokka þessar undirskriftir og fá þær tölur staðfestar sem InDefence lagði fyrir hann. Það mun taka tíma og ekki forsvaranlegt annað en láta kanna þessar undirskriftir, hvort heldur hann staðfestir eða synjar. Eins er ekki óeðlilegt að hann kalli til álitsgjafa sér til ráðuneytis varðandi þá þætti málsins sem hann vill fá nánari skýringar á.

Eins þarf að undirbúa næstu skref velji forseti að synja lögunum staðfestingar.

Trúlegt er að synji forseti lögunum staðfestingar þá má búast við að hér skelli á stjórnarkreppa. Forseti þarf því að vera með mótaða ef ekki tilbúna utanþingsstjórn sem forseti mun þá skipa. Utanþingsstjórn sem gæti tekið við stjórnartaumum hér innan viku frá því núverandi stjórn segir af sér. 

Eðlilegt væri að slík utanþingsstjórn sæti í það minnsta í rúmt ár þannig að kosið yrði vorið 2011. Alþingiskosningar væru þá ekki að trufla sveitarstjórnarkosningarnar sem fara fram á þessu ári. Það er heldur ekki gott ef sveitarstjórnar- og alþingiskosningar koma upp á sama tíma að fjórum árum liðnum. 

Ný búið er að samþykkja fjárlög þannig að slík utanþingsstjórn þarf ekki að leggja nein stjórnarfrumvörp fyrir þingið. Þingið hefur fjárveitingarvaldið og slík utanþingsstjórn þyrfti í raun fyrst  á Alþingi að halda í haust til að fá fjárlögin fyrir næsta ár samþykkt. Engin ástæða er til að ætla annað en að slík utanþingsstjórn ætti gott samstarf við þingið og það yrði myndaður meirihluti á Alþingi um lagabreytingar sem þingmenn teldu nauðsynlegar og vildu afgreiða fram að kosningum, þar með talin fjárlög fyrir næsta ár. Alþingi færi þá kannski loksins að samþykkja eitthvað af þessum góðu þingmannafrumvörpum sem sitjandi ríkisstjórnir hafa alltaf nær undantekningalaust hafnað og fellt. Forsetinn hefði svo í hendi sér að samþykkja og synja þeim lögum sem þingið samþykkir. Lögum sem forseti hafnar yrði vísað til þjóðarinnar.

Með þessu myndu stjórnmálaflokkarnir missa mikil völd og beint lýðræði í landinu yrði með þessu stóraukið.

Er það ekki einmitt slík utanþingsstjórn sem þetta samfélag þarf á að halda á þessu ári til að gera upp hrunið?

Er það ekki einmitt slík utanþingsstjórn sem við þurfum á að halda til að taka á skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem á að birta 1. febrúar n.k?

Aðeins dómsmálaráðherra getur ákært fyrir landráð. Mun slík ákæra nokkurn tíma vera lögð fram nema við völd verði utanþingsstjórn?

HoltasóleyOkkur í Norræna íhaldsflokknum og öðrum framboðum gæfist góður tími til að undirbúa þátttöku í komandi Alþingiskosningum vissum við að það yrði kosið til þeirra vorið 2011.

 

 

Mynd: Hvítárvatn og Langjökull. 

 


mbl.is „Ekki mikið tilefni til biðleiks“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Forsetinn mun undirrita lög alþingis. Þjóðaratkvæði er ekki í boði um þetta mál. Meira að segja formaður sjálfstæðisflokksins hefur sagt það.

Gísli Ingvarsson, 4.1.2010 kl. 14:56

2 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Gísli.

Málið er bara að hvorki formaður Sjálfstæðisflokksins né aðrir þingmenn ráða þessu. Þessi ákvörðun er ekki þeirra.

Þessi ákvörðun er forsetaembættisins. Eina embættisins í öll stjórnkerfinu sem þjóðin kýs til í beinni kosningu á fjögurra ára fresti. Eina embættisins sem sækir vald sitt beint til þjóðarinnar og er um leið valdamesta embætti landsins. Eða eins og segir í Hringadróttinssögu "one ring to rule them all". Þessi eini hringur, forsetaembættið, ræður því hér á Íslandi hverjir sitja sem ráðherrar og hvaða lög eru samþykkt frá Alþingi.

Er ekki lögnu tímabært að þjóðin fari að átta sig á því hvað hún á þar sem forsetaembættið er. Hvaða vald forsetaembættið hefur og hvaða hlutverki forsetaembættinu er falið samkvæmt stjórnarskrá  áður en menn hlaupa hér upp um alla veggi við að breyta stjórnarskránni til þess að koma hér á meira af beinu lýðræði?

Þessu valdi forsetaembættisins hefur bara ekki verið beitt í heilan mannsaldur. Þess vegna gerir þjóðin sér ekki grein fyrir hlutverki forsetaembættisins og valdi þess. Þess vegna hefur framkvæmda- og löggjafarvaldið runnið saman í eitt og við fengið hér með þekktum afleiðingum eitt fordæmalausasta ráðherraræði í vestur Evrópu og áhrifalaust löggjafarþing. Þing sem þjónar í dag ekki öðrum tilgangi en vera afgreiðslustofnun fyrir ráðherra og ríkisstjórn.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 4.1.2010 kl. 16:26

3 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Þú segir aldeilis tíðindi með vald forseta. Kannski er kallinn að undirbúa þetta sem þú ert að lýsa. Ég verð að segja það að mér líst sérdeilis vel á þetta.

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 4.1.2010 kl. 16:55

4 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll Arinbjörn

Nú var að birtast kl. 16.16 frétt á mbl.is þess efnis að forsetinn hafi hitt Jóhönnu og Steingrím í dag, sjá hér. Í framhaldi boðar forseti til blaðamannafundar á morgun kl. 11.00 sjá þessa frétt hér.

Í framhaldi af þessum tveim fréttum þá er mín tilgáta sú að forsetinn hafi tekið ákvörðun um helgina að synja lögunum um Icesave staðfestingar.

Mín tilgáta er sú að hann hafi hitt forystumenn ríkisstjórnarinnar í dag til að láta þau vita af þessari ákvörðun sinni, þannig að þau fái ráðrúm og tóm til að hugsa sitt ráð og undirbúa sig og ríkisstjórnina undir það sem forseti mun tilkynna á morgun. Forystumönnum ríkisstjórnarinnar gefist tími til að setja á blað yfirvegðu svör sem þau geta komið með fram á morgun og þau hafa tóm til að íhuga sinn næsta leik.

Mín tilgáta er sú að þessi dráttur á að forseti tilkynni niðurstöður sína það sé vinarbragð að hálfu forseta gagnvart forystumönnum ríkisstjórnarinnar. Dagurinn í dag, fyrsti virki dagurinn eftir áramótin, er tekinn í að láta ríkisstjórnina vita. Morgundagurinn er tekinn í að tilkynna þetta formlega.

En þetta eru jú bara mínar tilgátur nú þegar við öll, þjóðin og reyndar, eins yndislega og það hljómar nær allur heimurinn, bíðum spennt eftir blaðamannafundinum með forseta á morgun kl. 1.00.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 4.1.2010 kl. 17:48

5 Smámynd: Hrannar Baldursson

Vel skrifað og skynsamlega.

Ég vona að þú hafir rétt fyrir þér.

Hrannar Baldursson, 4.1.2010 kl. 19:38

6 Smámynd: Arinbjörn Kúld

Sæll Friðrik, ég geri orð Hrannars að mínum

Kveðja að norðan.

Arinbjörn Kúld, 4.1.2010 kl. 21:43

7 Smámynd: Kjartan R Guðmundsson

1.gr stjórnarskrár segir að á Íslandi sé þingbundin stjórn. Þannig að stjórnin er í umboði þingsins.

3.gr segir að forseti og stjórnvöld fari með framkvæmdarvaldið, en 11.gr segir að hann sé ábyrgðarlaus af stjórnarathöfnum, 14.gr segir að ráðherra beri ábyrgð á stjónarathöfnum. Svo segir næsta grein sú 15., að forseti skipi ráðherra og skipti með þeim störfum.

Samkvæmt þessu er forseti alvaldur og ábyrgðarlaus. Alþingi ber ábyrgð á stjórn landsins en forseti skipar stjórninna. Þetta er alveg með eindæmum.

Þessi stjórnarskrá er handónýt. Þar sem stendur forseti stóð áður kóngur. Konungurinn var alvaldur á sínum tíma og skipaði stjórn, smá saman dró úr völdum hans í raun, þó völdin hafi verið meiri á pappírnum, og þegar Íslendingar þýddu stjórnarskránna var litlu breytt. Núverandi forseti er að fikra sig nær konungsvaldinu gamla.

Vald forseta ætti ekki að vera neitt skv. þeim hefðum sem hér hafa verið. En við þurfum að henda þessari stjórnarskrá og gera nýja. Það væri hægt að kjósa höfuð framkvæmdarvaldsins beint.

Og kjósa Alþingi sem löggjafarvald sér og óháð framkvæmdarvaldinu. En það bara ekki þannig í núverandi stjórnarskrá.

Og mjög ólýðræðislegt að láta eins og svo sé.

Kjartan R Guðmundsson, 4.1.2010 kl. 22:18

8 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Sæll KRG

Er ekki málið að ráðherrar fara með daglegan rekstur ríkisins fyrir hönd forseta og ráðherrar bera ábyrgð á þessum daglegu ákvörðunum sínum sjálfir, ekki forseti. Eins og þegar þáverandi félagsmálaráðherra ræður/rekur forstöðumann Jafnréttisstofu og er kærður í kjölfarið og tapar málinu.

Er stjórnarskráin þarna ekki að tilgreina að forseti er ekki ábyrgur fyrir einstökum embættisfærslum ráðherra? Ráðherrar bera ábyrgð á þeim sjálfir.

Forseti ber einungis ábyrgð gagnvart kjósendum á starfi stjórnvalda í heild og forseti þarf að bera þær embættisfærslur fyrir þjóðina á fjögurra ára fresti.

Er þetta ekki hugsað þannig?

Friðrik Hansen Guðmundsson, 4.1.2010 kl. 22:57

9 Smámynd: Kjartan R Guðmundsson

Friðrik; Nei, ég held ekki. Fyrsta greinin segir beinlínis að á Íslandi sé þingbundin stjórn. Það ekkert hægt að hártoga það. En stjórnarskráin ber ýmis merki þess að hún sé til bráðabirgða. Þó hún sé að meginstofni óbreytt frá 1944.

T.d. síðasta greinin, sú 81. Er hún ekki óþörf í dag?

Forsetinn notaði þetta svokallaða synjunarvald 2004. Þá voru ekki til nein lög um útfærslu þjóðaratkvæðagreiðslu, ef þessu ákvæði yrði beitt. Það átti sem sagt enginn von á þessu.

En þau lög eru ekki ennþá til. Sem er undarlegt, þar sem búið er að beita þessu vopni.

Kjartan R Guðmundsson, 5.1.2010 kl. 01:07

10 Smámynd: Friðrik Hansen Guðmundsson

Það en engin tilviljun að þingið hefur ekki sett þessi lög.

Þingið hefur ekki viljað opna möguleikann á að hér verið mál sett í slíka þjóðaratkvæðagreiðslu. Þess vegna hefur þingi ekki sett slík lög.

Friðrik Hansen Guðmundsson, 5.1.2010 kl. 12:20

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband